Lög FÍA

Lög FÍA

1. KAFLI: NAFN OG HLUTVERK.

1. grein

Félagið heitir Félag íslenskra atvinnuflugmanna, skammstafað FÍA. Heimili og varnarþing skal vera í því sveitarfélagi þar sem starfsstöð félagsins er hverju sinni.

2. grein

Tilgangur félagsins er að:

 1. vinna að bættum kjörum félagsmanna og gæta hagsmuna þeirra í kjara- og réttindamálum,
 2. fara með samningsumboð fyrir hönd félagsmanna gagnvart launagreiðendum og öðrum,
 3. upplýsa félagsmenn um réttindi þeirra og skyldur,
 4. koma fram fyrir hönd félagsmanna gagnvart stjórnvöldum og öðrum, að því er varðar hagsmuni þeirra,
 5. annast samskipti við erlend flugmannafélög og alþjóðasamtök flugmanna,
 6. stuðla og styrkja flugvernd og öryggi í almenningsflugi,
 7. veita félagsmönnum aðstoð í veikindum skv. reglugerð sjúkrasjóðs FÍA,
 8. efla þekkingu félagsmanna á starfsemi FÍA og stuðla að fræðslu, m.a. með útgáfustarfsemi.

3. grein

Fullgildur félagsmaður getur hver sá orðið sem uppfyllir eftirtalin skilyrði:

 1. er handhafi gilds atvinnuflugmannsskírteinis útgefnu af ríki innan EES,
 2. hefur leyfi til að starfa á Evrópska efnahagssvæðinu (EES),
 3. er í ráðningarsambandi við flugrekanda eða flugskóla samkvæmt kjarasamningi við FÍA,
 4. hefur greitt félagsgjald til FÍA á undangengnum mánuði.

Stjórn og trúnaðarráð FÍA geta veitt undanþágu frá framangreindum skilyrðum.

4. grein

Umsókn um aðild ber að skila með rafrænum hætti í gegnum heimasíðu FÍA.  Umsókn um aðild skal bera undir stjórn FÍA til samþykktar á stjórnarfundi og skal stjórn staðfesta að umsækjandi uppfylli öll skilyrði 3. gr.

Rísi ágreiningur um inntökubeiðni, úrskurðar félagsfundur.

5. grein

Atkvæðisbær er fullgildur félagsmaður FÍA sbr. 3. gr. sem fengið hefur samþykki stjórnar FÍA sbr. 4. gr. þessara laga. Félagsmaður í uppsögn heldur atkvæðisrétti sínum hafi hann greitt félagsgjald a.m.k. einn mánuð á undangengum sex mánuðum. 

6. grein

Aukafélagi FÍA er:

 1. félagsmaður sem misst hefur starf sitt en greiðir félagsgjald af greiðslum úr Atvinnuleysistryggingasjóði sem sjóðurinn hefur milligöngu um að skila til FÍA,
 2. félagsmaður sem er í launalausu leyfi og starfar ekki hjá öðrum flugrekanda eða flugskóla samkvæmt kjarasamningi FÍA,
 3. einstaklingur með gilt atvinnuflugmansskírteini sem hefur leyfi til að starfa á Evrópska efnahagssvæðinu (EES) en starfar ekki á grundvelli kjarasamnings FÍA þrátt fyrir að greiða félagsgjald til FÍA af launum sínum. Umsókn um aukafélagsaðild þarf að berast FÍA til samræmis við 4. gr.

7. grein

Aukafélagar skulu hafa fullt málfrelsi og tillögurétt um málefni félagsins á félagsfundum, en hafa hvorki atkvæðisrétt né eru kjörgengir til starfa í stjórn, trúnaðarráði eða lögboðnum fastanefndum.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr.  skulu þeir aukafélagar er taka lífeyri hafa atkvæðisrétt og kjörgengi í málum er varða Eftirlaunasjóð FÍA.

8. grein

Úrsögn félagsmanns úr félaginu getur átt sér stað ef félagsmaður á ekki í ráðningasambandi við flugrekanda eða flugskóla samkvæmt kjarasamningi FÍA. Úrsögn skal vera skrifleg eða rafræn og send skrifstofu FÍA. 

9. grein

Hver sá félagsmaður FÍA sem gegnir trúnaðarstörfum fyrir flugfélag skal ekki á sama tíma gegna trúnaðarstörfum fyrir stéttarfélag sitt, svo sem sitja í stjórn, samninganefnd, trúnaðarmannaráði eða starfsráði.  Undanþegin er Öryggisnefnd.

Trúnaðarstörf teljast eftirtalin störf: Stjórnar- eða varastjórnarstörf flugfélaganna, deildarstjórastörf eða yfirflugmannsstörf.

Stjórn og trúnaðarráð FÍA geta veitt undanþágu frá skilyrðum 1. málsgr.

10. grein

Félagsmönnum, sem sitja í stjórn, varastjórn eða gegna deildarstjórastörfum flugfélaga, er óheimilt að sitja fundi FÍA þar sem kjaramál eru á dagskrá. Undanskilin eru málefni Eftirlaunasjóðs FÍA.

2. KAFLI:  UM RÉTTINDI OG SKYLDUR, RÉTTINDAMISSI OG BROTTREKSTUR

11. grein

Réttindi félagsmanna eru:

A: Málfrelsi, kjörgengi tillögu- og atkvæðisréttur á félagsfundum.

B: Styrkir úr sjóðum félagsins eftir því sem ákveðið er í reglugerðum þeirra.

C: Aðstoð vegna vanefnda atvinnurekanda á samningum, lögum og reglugerðum.

D: Réttur til að vinna upp á kaup og kjör er samningar félagsins ákveða hverju sinni.

12. grein

Skyldur félagsmanna eru:

A: Að hlíta lögum félagsins, fundarsköpum, fundarsamþykktum og samningum í öllum greinum.

B: Að gegna trúnaðarstörfum fyrir félagið endurgjaldslaust, nema annað sé ákveðið.

C: Að greiða félagsgjöld til félagsins á réttum gjalddaga.

D: Að gefa stjórn félagsins upplýsingar um hvers konar tilraunir atvinnurekanda til að brjóta eða sniðganga kjarasamninga.

E: Aðhafast ekkert það sem er félaginu til tjóns eða álitshnekkis.

13. grein

Hafi félagsmaður gerst brotlegur við ákvæði 12. gr. getur stjórn FÍA, að fengnu áliti Siðanefndar, beitt eftirfarandi refsiákvæðum:

A: Áminningu.

B: Svift félagsmann tillögurétti og fundarsetu um tiltekinn tíma.

C: Svift félagsmann rétti til að gegna trúnaðarstörfum í þágu FÍA um ákveðinn tíma.

D: Vikið félagsmanni úr FÍA um lengri eða skemmri tíma.

Úrskurði stjórnar FÍA má skjóta til félagsfundar, sem hefur endanlegt úrskurðarvald og er sá úrskurður bindandi fyrir alla félagsmenn.

14. grein

Nú er félagsmanni vikið úr félaginu og á hann þá ekki afturkvæmt í það nema inntökubeiðni hans sé samþykkt á lögmætum félagsfundi.

15. grein

Hafi félagsmaður gegnt trúnaðarstarfi fyrir félagið í tvö kjörtímabil eða lengur getur hann skorast undan endurkosningu næstu tvö ár.

 1. KAFLI:  STJÓRN, TRÚNAÐARRÁÐ, NEFNDIR OG EFTIRLAUNASJÓÐUR FÍA.

16. grein

Stjórn félagsins skipa formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri og 5 meðstjórnendur. Formaður og varaformaður eru kjörnir sérstaklega á aðalfundi en stjórn skiptir að öðru leyti með sér verkum.

Allir félagsmenn FÍA samkvæmt 3. gr. eru kjörgengir til stjórnar. Aðeins 5 félagsmenn frá hverjum samningsaðila FÍA geta tekið sæti í stjórn hverju sinni. Fái fleiri en 5 félagsmenn frá sama samningsaðila FÍA kosningu á aðalfundi skulu einungis þeir 5 er flest atkvæði hljóta taka sæti í stjórn. Þeir frambjóðendur er flest atkvæði hljóta frá öðrum samningsaðilum taka þá sæti í stjórn.

17. grein

Stjórnarfundir eru lögmætir ef meirihluti stjórnar er mættur.

18. grein

Formaður kveður til funda og stjórnar þeim.  Hann undirritar gerðabækur félagsins og gætir þess að allir stjórnarmenn geri skyldu sína. Hann hefur umsjón með starfsemi félagsins og eftirlit með því að fylgt sé lögum þess og reglum í öllum greinum.

Varaformaður gegnir öllum störfum formanns í forföllum hans.

19. grein

Ritari heldur gerðabækur félagsins og ber ábyrgð á fundargerðum.  Hann undirritar gerðabækur félagsins ásamt formanni.

Ritari skal halda til haga í sérstakri bók, gildandi fundarsamþykktum félagsins.

20. grein

Féhirðir hefur á hendi eftirlit með fjárreiðum og innheimtu félagsins og bókfærslu eftir nánari fyrirmælum stjórnarinnar.

21. grein

Stjórn félagsins ræður alla starfsmenn félagsins, ákveður laun þeirra og vinnuskilyrði, ennfremur greiðslur til stjórnar og nefnda.

22. grein

A. Trúnaðarráð skal skipað á eftirfarandi hátt:

 1. Aðalmenn stjórnar félagsins og skulu varamenn stjórnar fara með atkvæði stjórnarmanna í forföllum þeirra.
 2. Einum fulltrúa fyrir byrjaða 25 félagsmenn á hverjum kjarasamningi FÍA, miða skal við 1.janúar ár hvert. Heimilt er kjörnum trúnaðarráðsmanni sem ekki getur setið fund, að fela öðrum kjörnum trúnaðarráðsmanni að fara með atkvæði sitt, enda sé umboðið stílað á nafn.

Kosning í trúnaðarráð

 1. Samstarfsnefndir sjá um kosningar fulltrúa í ráðið á hvern kjarasamning,
 2. Kosning skal fara fram eftir aðalfund FÍA. Miða skal við að kosningunni sé lokið innan 45 daga frá aðalfundi.
 3. Þar sem samstarfsnefndir eru ekki starfandi skal stjórn FÍA hafa samráð við viðkomandi flugmannahóp um kosningar.
 4. Heimilt er að notast við rafræna kosningu.
 5. Stjórnarmaður í stjórn FÍA telst ekki eitt sæti í trúnaðarráði á kjarasamning viðkomandi flugrekanda
 6. Kjörið trúnaðarráð situr þar til nýtt ráð tekur til starfa.

Trúnaðarráð

 1.  Formaður FÍA skal vera formaður trúnaðarráðs og ritari félagsins ritari þess.

Einungis fullgildur félagsmaður FÍA getur setið í trúnaðarráði.

B: Formaður kveður trúnaðarráð til fundar með þeim hætti er hann telur heppilegast. Einnig telst fundarboðun lögleg standi meira en þriðjungur trúnaðarráðsfulltrúa að henni. Þegar mikilvæg mál liggja fyrir og stjórnin telur of tafsamt að boða til félagsfundar, skal formaður kalla saman trúnaðarráð og bera málið þar upp. Lögmætir eru fundir ráðsins sé meira en helmingur þess mættur, þar af meirihluti stjórnar.

C: Við atkvæðagreiðslu í ráðinu ræður meiri hluti atkvæða. Ákvarðanir sem ráðið tekur skulu vera jafngildar og teknar hefðu verið á félagsfundi. Til að hnekkja ákvörðunum trúnaðarráðs þarf meirihlutasamþykkt félagsfundar.

D: Trúnaðarráð gætir hagsmuna og öryggis félagsmanna vegna starfs þeirra og skal sjá um að samningar félagsins við vinnuveitendur séu haldnir, svo og starfsreglur (OM-A).

E: Láti félagsmenn af störfum sem fulltrúar í trúnaðarráði, starfsráði eða sem skoðunarmenn reikninga, skal trúnaðarráð kjósa nýja menn í þeirra stað til næsta aðalfundar. Láti félagsmenn af störfum sem fulltrúar í stjórn skal varamaður færður upp og trúnaðarráð kjósa nýja menn í varamannssæti til næsta aðalfundar.

Trúnaðarráð skal koma saman minnst einu sinni á ári.

23. grein

Fastanefndir, aðrar nefndir og fulltrúar FÍA.

A: Eftirtaldar fastanefndir skulu starfa á vegum FÍA.

 • Öryggisnefnd
 • Samstarfsnefndir
 • Samninganefndir
 • Siðanefnd

Fastanefndir skulu skipaðar af stjórn FÍA. Fastanefndir skulu standa skil á störfum sínum til stjórnar FÍA og halda fundargerðir.

Öryggisnefnd og samstarfsnefndir skipa fulltrúa í sínar undirnefndir, ef þörf er á.

B: Hlutverk samstarfsnefnda:

 • Að annast eftirfylgni með kjarasamningum viðkomandi viðsemjenda á samningstímanum.
 • Að annast kosningar í trúnaðarráð.
 • Að fjalla um undanþágur á ákvæðum kjarasamnings á samningstímanum.
 • Allar undanþágur á ákvæðum kjarasamnings skulu háðar samþykki stjórnar FÍA.

C: Stjórn FÍA skipar að auki í nefndir og embætti m.a.:

 • Alþjóðanefnd (annast erlend tengsl)
 • Stoðnefnd
 • Skemmtinefnd
 • Fulltrúa í stjórn Flugminjasafns Íslands
 • Sjúkrasjóð FÍA

24. grein

Um eftirlaunasjóð FÍA.

A: Um hlutverk sjóðsins, sjóðfélaga, stjórn, aðalfundi og önnur atriði fer samkvæmt samþykktum hans á hverjum tíma.

B: Stjórn FÍA tilnefnir þrjá aðalmenn og þrjá varamenn í stjórn Eftirlaunasjóðsins. Skipunartímabil fulltrúa FÍA í sjóðstjórn er að lágmarki eitt ár, og miðast það við ársfund EFÍA. 

4. KAFLI:  FUNDIR OG STJÓRNARKJÖR.

25. grein

Aðalfundur skal haldinn fyrir 1. mars ár hvert.  Takist ekki að ljúka aðalfundarstörfum á einum fundi skal boða til framhaldsaðalfundar.

Heimilt er að boða til aukaaðalfundar um einstök málefni ef brýna nauðsyn ber til.

26. grein

 Verkefni aðalfundar eru:

 1. Stjórn félagsins gefur skýrslu um starfsemi félagsins.
 2. Lagðir fram endurskoðaðir reikningar félagsins.
 3. Lagabreytingar.
 4. Stjórnarkjör.
 5. Kosið í störf þau sem aðalfundi hefur verið falið.
 6. Kosnir skulu tveir skoðunarmenn reikninga.
 7. Kosning í Starfsráð á þriggja ára fresti.
 8. Önnur mál.

27. grein

Aðalfundur skal boðaður, með dagskrá, með minnst  þriggja vikna fyrirvara og er hann lögmætur ef löglega er til hans boðað og minnst 5% fullgildir félagsmenn mæta og meirihluti stjórnar. Sé löglega boðaður aðalfundur ólögmætur vegna ónógrar þátttöku félagsmanna skoðast næsti löglega boðaður aðalfundur lögmætur.

Þeir sem gefa kost á sér til þeirra starfa sem kosið er í á aðalfundi, skulu tilkynna stjórn FÍA skriflega um framboð sitt þremur vikum fyrir aðalfund.

28. grein

Fulltrúar í stjórn skulu kosnir með rafrænum kosningum og er kjörtímabil stjórnar tvö ár. Stjórnarkjör fer þannig fram að formaður og fjórir meðtjórnendur eru kosnir annað hvert ár. Kjör varaformanns og þriggja meðstjórnenda fer fram það ár sem stjórnarformaður er ekki kjörinn.

Verði sæti formanns laust tekur varaformaður sæti hans fram að næsta aðalfundi og skal þá kjósa formann til tveggja ára en varaformann til eins árs. Verði sæti varaformanns laust skal kjósa nýjan varaformann á næsta aðalfundi. Verði sæti meðstjórnenda laust skal stjórn boða til fundar hjá trúnaðarráði og skal trúnaðarráð kjósa meðstjórnanda í stjórn FÍA fram að næsta aðalfundi.

29. grein

Nú bjóða fleiri en tveir menn sig fram til embættis formanns eða varaformanns, skal þá kosið tvisvar fái enginn frambjóðenda fleiri en helming greiddra atkvæða.  Í síðari umferð skal kosið milli þeirra tveggja er flest atkvæði hlutu í fyrri umferð og skal sá er nú hlýtur fleiri atkvæði teljast rétt kjörinn.

30. grein

Félagsfundur fer með æðsta vald í málefnum félagsins á milli aðalfunda.  Félagsfundir skulu haldnir þegar stjórn félagsins álítur þess þörf eða minnst 15% fullgildra félagsmanna óska þess.

Halda skal félagsfundi eigi sjaldnar en þrisvar á ári.  Félagsfundur er lögmætur, ef löglega er til hans boðað.

31. grein

Félagsfundum stjórnar fundarstjóri sem fundurinn kýs og kveður hann sér fundarritara.  Einnig skal hann tilnefna tvo menn sem sjá svo um að með umboð og atkvæði sé farið samkvæmt félagslögum og skal kjörskrá liggja frammi í upphafi fundar.  Fundarstjóri sker úr öllu sem snertir lögmæti fundarins samkvæmt ákvæðum félagslaganna, stjórnar umræðum og meðferð mála á fundum og atkvæðagreiðslum.  Atkvæðagreiðslur skulu jafnan vera skriflegar ef tveir eða fleiri fundarmanna óska þess.

32. grein

Félagsfundi skal boða með rafpósti eða bréflega, með dagskrá, og  þannig að  fundarboð hafi borist viðtakanda tveimur dögum fyrir fund. 

Heimilt er að boða til funda með auglýsingum í blöðum, útvarpi og sjónvarpi, símleiðis eða með rafpósti, sé að mati stjórnar, nauðsynleg svo skyndileg fundarboðun að öðru verði ekki viðkomið.

33. grein

Skriflega allsherjaratkvæðagreiðslu skal viðhafa ef:

 1. Stjórn og/eða trúnaðarráð telja það nauðsynlegt.
 2. Lögmætur félagsfundur samþykkir það.

Kjörfundur vegna allsherjaratkvæðagreiðslu skal standa minnst í sjö sólarhringa. Allsherjaratkvæðagreiðsla má einnig vera rafræn. Stjórn félagsins skal setja reglur það um.

33. grein A

Trúnaðarráð skipar kjörstjórn og formann hennar eigi síðar en 31. desember ár hvert. Kjörstjórn skal skipuð þremur mönnum og einum til vara.

Kjörstjórn skal hafa umsjón með undirbúningi og framkvæmd kosninga, skera úr um kjörgengi og kosningarétt, hafa yfirumsjón með talningu atkvæða og skera úr um gildi vafaatkvæða.

Kosning skal vera rafræn og skal opna fyrir rafræna kosningu 7 dögum fyrir aðalfund. Niðurstöður kosninga skulu kynntar á aðalfundi.

Kjörseðill er aðeins gildur að kosnir séu jafnmargir og kjósa skal hverju sinni.

33. grein B

Stjórn félagsins skal fela kjörstjórn að halda skrá yfir alla félagsmenn sem atkvæðisrétt hafa í sérstaka kjörskrá. Kjörskrá skal liggja frammi eigi síðar en viku fyrir aðalfund, en samdægurs vegna annarra kosninga.

Kærufrestur kjörskrár er til kl 12:00 á kjördegi.

5. KAFLI: UM VINNUDEILUR

34. grein

Ákvörðun um vinnustöðvun skal tekin í samræmi við gildandi lög um stéttarfélög og vinnudeilur.  Almenn leynileg atkvæðagreiðsla skal standa í a.m.k. 7 sólarhringa, enda hafi stjórn félagsins auglýst nægilega, hvar og hvenær atkvæðagreiðslan um vinnustöðvunina skuli fara fram.

6. KAFLI: FJÁRMÁL

35. grein

Reikningsár félagsins og sjóða þess er almanaksárið.  Reikningar skulu endurskoðaðir af kjörnum skoðunarmönnum reikninga félagsins og liggja frammi á skrifstofu félagsins tíu dögum fyrir aðalfund.

36. grein

Félagsgjöld mega nema allt að 1% af brúttólaunum félagsmanna samkvæmt ákvörðun trúnaðarráðs. 

7. KAFLI: LAGABREYTINGAR:

37. grein

Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi FÍA enda hafi breytinganna verið getið í fundarboði.

Laganefnd skal kynna trúnaðarráði breytingatillögur til umsagnar áður en þær eru sendar með fundarboði fyrir aðalfund.

Til þess að breytingin nái fram að ganga verður hún að vera samþykkt með 2/3 hluta greiddra atkvæða á lögmætum aðalfundi.

Lagabreytingar samþykktar á aðalfundi, öðlast þegar gildi nema annað sé tekið fram.

Breytingar frá aðalfundi 2018 færðar inn.

Innskráning FÍA

Ef vandræði eru með innskráningu eða aðgangsheimildir hafðu samband við webmaster@fia.is