None
19. aug 2013

Reykjavíkurflugvöll áfram í Vatnsmýri

Félagið Hjartað í Vatnsmýri hefur hafið undirskriftasöfnun á vefslóðinni www.lending.is þar sem skorað er á borgarstjórn Reykjavíkur og Alþingi að tryggja óskerta flugstarfsemi í Vatnsmýri. Undirskriftir verða afhentar borgarstjórn áður en frestur til að gera athugasemdir við tillögu að nýju aðalskipulagi Reykjavíkur rennur út
þann 20. september nk., en sem kunnugt er gerir skipulagstillagan ráð fyrir að flugvöllurinn víki úr Vatnsmýri
innan skamms.

Stjórn FÍA er einn af þeim sem stofnuðu til þessa átaks og skorar því á félagsmenn sína og landsmenn alla að kynna sér þetta málefni og hvetur alla til að skrifa á undirskriftalistann. Jafnframt eru allir hvattir til að safna sem flestum undirskriftum!

Auk vefsíðunnar verða undirskriftalistar aðgengilegir um land allt, jafnframt því sem miklir hagsmunir landsmanna allra af óbreyttri flugstarfsemi í Vatnsmýri verða kynntir víða um land með áberandi hætti á næstunni.

Mikið hefur verið ritað og rætt um þetta mál á undanförnum árum og flestum ljóst um hvað málið snýst, en skerpt verður á því á næstunni. Í hnotskurn má segja, að nokkur hópur íbúa Reykjavíkur telji það réttlætanlegt að hætta flugstarfsemi í Vatnsmýri til þess að koma þar upp íbúabyggð. Það er mat stjórnar félagsins Hjartað í Vatnsmýri eins og stórs hluta landsmanna að það sjónarmið sé illa ígrundað og ákvörðun í þá veru gengi beinlínis gegn hagsmunum landsmanna flestra, þar á meðal og ekki síst Reykvíkinga sjálfra.

Innanlandsflug yrði tæplega flutt annað en til Keflavíkur. Við það tapast fjöldi starfa í Reykjavík, ferðatími milli Reykjavíkur og landsbyggðar eykst til muna svo og kostnaður flugfarþega, hvort sem eru Reykvíkingar, aðrir landsmenn eða ferðamenn. Sú nokkuð víðtæka sátt sem verið hefur um að byggja upp sérhæfða þjónustu í Reykjavík fyrir landsmenn alla mun bíða hnekki. Þar má nefna stjórnsýsluna, menntastofnanir, fjármálaþjónustu og síðast en ekki síst heilbrigðisþjónustuna og þá sérstaklega bráðamóttöku, sem útilokað er að sé fjarri flugvelli. Í því sambandi er rétt að undirstrika sérstaklega, að rúmlega 600 sjúkraflug fara um Reykjavíkurflugvöll á ári hverju. Það eru um tólf flug í viku hverri árið um kring.

Fjölmörg önnur atriði til stuðnings staðsetningu flugvallar í Vatnsmýri má nefna, en þeim hafa bæði verið gerð góð skil í blaðagreinum, viðtölum og umræðum í borgarstjórn, á Alþingi og víðar og verða jafnframt gerð betri skil síðar.

Um félagið
Félagið Hjartað í Vatnsmýri var stofnað þann 8. júlí 2013 í þeim tilgangi að berjast fyrir því mikilvæga hagsmunamáli landsmanna allra að tryggja óskerta flugstarfsemi í Vatnsmýri. Í stjórn félagsins eru 14 einstaklingar víða af landinu og formenn eru þeir Friðrik Pálsson, hótelhaldari og Njáll Trausti Friðbertsson, flugumferðarstjóri.

Vefslóð: http://www.lending.is

Frekari upplýsingar
Allar frekari upplýsingar veita formenn félagsins:

Friðrik Pálsson, hótelhaldari, 892-­‐1464
Njáll Trausti Friðbertsson, flugumferðarstjóri, 861-­‐9373