None
15. jul 2011

Yfirlýsing frá FÍA

Stjórn og samninganefnd FÍA lýsa furðu sinni yfir yfirlýsingum Samtaka ferðaþjónustunnar og minna jafnframt á að flugmenn eru ekki að fara í verkfall, heldur yfirvinnubann, sem þýðir að menn mæta til vinnu bæði á uppsettar vaktir sem og bakvaktir. Þau tilfelli sem flugmenn vinna ekki eru ef reynt er að kalla þá af frívöktum. Ef slíkt kemur upp í einhverjum mæli er það vísbending um að fyrirtækið sé ekki nægilega vel mannað en samkvæmt þeim samningi sem nú er unnið eftir, er reiknað með að fyrirtækið skuli manna sig rétt til að manna allar vaktir og 10% betur til að standa straum af óvæntum atriðum, s.s. veikindum eða öðrum þáttum sem verða til þess að vaktir breytast.

FÍA minnir jafnframt á að það eru fleiri aðilar við samningaborðið en þeir einir og vísa ábyrgð á stöðunni til viðsemjenda sem ekki vilja ljá máls á þeim einföldu atriðum sem óskað er eftir að verði lagfærð sem öll eru hluti af títtnefndu starfsöryggismáli. FÍA gerir sér grein fyrir því að sveiflur eru í ferðaþjónustunni hérlendis sem og í öðrum löndum. Staðreyndin er sú að allflest erlend flugfélög taka ekki svona á starfsmannamálum sínum, heldur er öllum haldið í vinnu yfir þann tíma sem minna er að gera, svo fremi sem ljóst þyki að eingöngu sé um árstíðasveiflu að ræða, hvers vegna þarf Icelandair, fyrirtæki sem hefur verið að skila methagnaði, að láta starfsfólk taka á sig þessa sveiflu, er sjálfgefið að starfsmenn séu launalausir vetur eftir vetur til þess eins að hluthafar geti fengið afrakstur sumarvinnu þeirra í vasann?

Mikið er talað um að flugmenn séu hálaunamenn en alltaf gleymist í þeirri umræðu að flugnám kostar í dag a.m.k. 12 milljónir og er ekki lánshæft nema að litlum hluta, menn horfa svo til þess að fá eingöngu vinnu í 3-6 mánuði á ári fyrstu 6-8 árin, það er reikningsdæmi sem illa gengur upp. Varðandi laun þessara manna sem við þetta búa þá eru grunnlaun þeirra á milli 4 og 500 þúsund að viðbættu vaktaálagi, það þýðir árslaun upp á um 1,5 - 3 milljónir auk vaktaálags á ári miðað við það starf sem þetta ágæta fyrirtæki er að bjóða þeim uppá.

Það ítrekast hér að Félag íslenskra atvinnuflugmanna hefur gengið að þeim launahækkunum sem Samtök atvinnulífsins bjóða uppá og bundnar voru vonir til þess að komið yrði til móts við þennan hóp í einhverjum skrefum varðandi að lagfæra þetta óviðunandi ástand sem nú varir varðandi störf þessa hóps sem ekki getur tryggt sér og fjölskyldum sínum viðunandi lífsskilyrði miðað við þann kostnað sem til féll við að koma sér í þetta starf hjá okkar ágæta fyrirtæki.

FÍA skorar á SA og Icelandair að opna augun fyrir raunveruleikanum og stíga hænuskref í átt til þessa hóps sem ætlar með stolti að vinna hjá fyrirtækinu, eflaust flestir til starfsæviloka ef þeim er gert það klefit með ofangreindum lagfæringum. Jafnframt skorar félagið á Samtök ferðaþjónustunnar að líta í eigin barm og hvetja aðildarfélög sín að búa starfsfólki kjör sem hægt er að búa við allt árið!