Nafn og heimili
1.1. Sjóðurinn heitir Sjúkrasjóður FÍA. Heimili hans og varnarþing er í því sveitarfélagi sem starfsstöð félagsins er hverju sinni.
Verkefni
2.1. Verkefni sjóðsins er að veita sjóðsfélögum sjúkrasjóðs F.Í.A. fjárhagsaðstoð í veikinda- og slysatilvikum og greiða dánarbætur, eins og nánar er mælt fyrir í reglugerð þessari.
2.2. Að greiða kostnað vegna trúnaðarlæknis F.Í.A. veita styrk til rannsókna og fræðslu er varða heilsumál flugmanna, samkvæmt nánari samkomulagi við stjórn F.Í.A.
2.3. Að greiða kostnað vegna forvarna og heilsuverndar flugmanna svo sem sérhæfðar blóðrannsóknir samhliða læknisskoðun samþykkt af stjórn sjóðsins.
Aðild
3.1. Sjóðsfélagar eru þeir sem iðgjöld eru greidd fyrir til sjóðsins skv. 5. gr.
Stjórn
4.1. Stjórn FÍA skipar 3 menn í stjórn sjóðsins og einn til vara.
Stjórnarmenn sjóðsins skulu vera félagar í FÍA.
Þeir skulu sjá um að fé sjóðsins ávaxtist sem best og með tryggilegum hætti.
4.2. Reikningsársjóðsins er almanaksárið.
Endurskoðendur félagssjóðs FÍA eru jafnframt endurskoðendur sjúkrasjóðsins.
Skoðunarmenn reikninga FÍA eru jafnframt skoðunarmenn reikninga sjúkrasjóðsins.
4.3. Stjórn FÍA ákveður greiðslur til stjórnarmanna og koma þær úr sjúkrasjóði.
Sjóðurinn greiðir allt að 2% af brúttótekjum í félagssjóð FÍA fyrir húsaleigu og rekstrarkostnað sjúkrasjóðs, samkvæmt nánari ákvörðun stjórnar FÍA.
Tekjur sjóðsins
5.1. Tekjur sjóðsins eru sjúkrasjóðsgjöld sem greidd eru skv. kjarasamningum Félags íslenskra atvinnuflugmanna við vinnuveitendur, með tilvísun til laga nr. 19, 1. maí 1979, svo og vextir.
Réttur til greiðslna
6.1. Rétt til greiðslu úr sjóðnum samkv. gr. 2.1 eiga þeir einir sem iðgjöld hafa verið greidd fyrir undanfarandi þrjá mánuði.
6.2. Víkja má frá ákvæði um greiðslur iðgjalda í þrjá mánuði, þegar sérstakar ástæður mæla með því.
Styrkveitingar
7.1. Umsóknir um styrk úr sjóðnum skal skilað á því formi sem stjórn sjóðsins ákveður og þeim fylgi nauðsynleg vottorð og fylgiskjöl sem tryggja réttmæti greiðslna.
7.2. Ef sjóðsfélagi á við langvarandi veikindi að etja, eða verði hann fyrir alvarlegu slysi eða áfalli og stjórn sjóðsins metur honum það til fjárhagslegs tjóns, er henni heimilt að veita viðkomandi sérstakan styrk.
7.3. Sjóðsstjórn er heimilt að setja það sem skilyrði fyrir styrkveitingu úr sjóðnum að umsækjandi gangist undir læknisskoðun hjá trúnaðarlækni FÍA og/eða leitað verði umsagnar hans.
7.4. Sjóðnum er heimilt að greiða dánarbætur vegna andláts sjóðsfélaga, maka hans og barna til 24 ára aldurs, einnig vegna andláts elli- og örorkulífeyrisþega í Eftirlaunasjóði FÍA, og einnig vegna sérstakra aðstæðna. Ef maki á rétt á dánarbótum úr öðrum sjóði/sjóðum skal það ganga til frádráttar bóta úr Sjúkrasjóði FÍA. Taka skal mið af gjaldskrá Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæmis.
7.5. Sjóðurinn skal hafa til ráðstöfunar greiðslu styrkveitinga sbr. grein 7.1. til 7.4. upphæð sem nemur kr. 30.000 vegna hvers sjóðfélaga og breytist sú upphæð skv. vísitölu neysluverðs sem var 356,2 stig 1. janúar 2010.
7.6. Reikna skal út árlega ráðstöfunarfé umfram skuldbindingu skv. grein 7.5. og grein 2.
7.7. Greiða styrk til sjóðfélaga af “ráðstöfunarfé” skv. grein 7.6. í hlutfali við inngreiðslu, að ákvörðun stjórnar sjóðsins.
7.8. Aðalfundur FÍA getur samþykkt, með 2/3 hluta greiddra atkvæða, aðrar greiðslur úr sjóðnum en reglugerð þessi heimilar.
Breytingar á reglugerðinni
8.1. Breytingar á reglugerð þessari má aðeins gera á aðalfundi F.ÍA., enda hafi þeirra verið getið í fundarboði. Þarf 2/3 hluta greiddra atkvæða til að breytingartillaga hljóti samþykki.
Gildistaka
9.1. Reglugerð þessi gildir frá 22. febrúar 2001.