Sonja er nýr lögfræðingur FÍA
Sonja Bjarnadóttir hefur nú tekið við störfum af Ernu Á. Mathiesen sem lögfræðingur FÍA, en Erna mun hefja LL.M. nám við Háskólann í Osló í haust. Sonja útskrifaðist sem lögfræðingur frá Háskólanum í Reykjavík árið 2008 og kemur til FÍA frá Samkeppniseftirlitinu þar sem hún hefur starfað síðastliðin ellefu ár. „Það eru mörg áhugaverð verkefni sem liggja fyrir og ég er spennt að koma hér til starfa. Ég hlakka til að takast á við það sem framundan er og vinn nú að því að setja mig inn í þau mál sem fyrir liggja,“ segir Sonja sem hefur góða þekkingu og reynslu af Evrópurétti og samningarétti og víðtæka starfsreynslu sem mun nýtast atvinnuflugmönnum vel. FÍA býður Sonju hjartanlega velkomna til starfa.
Erindi um B737 Max frá formanni IFALPA
Flugmálayfirvöld um allan heim ákváðu að kyrrsetja Boeing 737 Max vélarnar í mars á þessu ári eftir tvö hörmuleg slys sem urðu með minna en fimm mánaða millibili. Formaður IFALPA og flugstjórinn Jack Netskar skrifaði pistil eftir að hann sótti B737 Max leiðtogafund sem haldinn var í Montreal. Erindi hans má nálgast hér að neðan.
Fréttabréf júlímánaðar er komið út.
Fréttabréf FÍA fyrir júlímánuð er nú komið út en þar kennir ýmissa grasa að vanda.
Niðurstaða stjórnarkjörs EFÍA
Kjöri til stjórnar EFÍA lauk kl. 12:00, þriðjudaginn 4. júní.
Kjörsókn var góð og kusu 41,55% sjóðfélaga. Kjör til aðalstjórnar hlutu Sturla Ómarsson og Kjartan Jónsson. Kjör til varastjórnar hlaut Ingvar Mar Jónsson.
Sjá nánar á heimasíðu EFÍA.
Fréttabréf maímánaðar
Fréttabréf FÍA fyrir maímánuð er komið út og er nú að mestu helgað væntanlegum kosningum til stjórnar EFÍA, þótt þar finnist ýmislegt fleira! Fréttabréfið er nú í fyrsta sinn gefið út á bæði íslensku og ensku. Í því alþjóðlega umhverfi sem við störfum í er mikilvægt að allir félagsmenn hafi greiðan aðgang að upplýsingum um félagið, starfsemi þess og réttindi sín.
Ársfundur EFÍA
Ársfundur Eftirlaunasjóðs FÍA verður haldinn þriðjudaginn 28. maí kl. 11:00 í Hlíðarsmára 8 í Kópavogi.
Allir sjóðfélagar eiga rétt til setu á ársfundinum með umræðu og tillögurétti. Fundargögn má nálgast á vefsíðu sjóðsins.
Vakin er sérstök athygli á stjórnarkjöri sem fram fer nú í fyrsta sinn og sjóðfélagar hvattir til að nýta sér atkvæðisrétt sinn. Rafrænt stjórnarkjör hefst í kjölfar ársfundar og verður opið í 7 daga.
Frekari upplýsingar um stjórnarkjör má sjá hér
Dagskrá:
- Skýrsla stjórnar
- Ársreikningur kynntur
- Tryggingafræðileg úttekt
- Fjárfestingarstefna
- Stjórnarkjör
- Skipun stjórnarmanna sem ekki eru kjörnir á ársfundi og laun stjórnarmanna
- Val endurskoðanda
- Önnur mál
Lögfræðingur FÍA
FÍA leitar nú að nýjum lögfræðingi, en lögfræðingur okkar gegnir mikilvægu hlutverki í starfsemi félagsins og sýnir frumkvæði í verkefnum. Meginhlutverk hans er að gæta hagsmuna félagsmanna ásamt því að starfa náið með stjórn. Sjá nánar um starfið og umsóknarferli í mynd hér að neðan.
Sprettu úr spori!
Starfsmenntasjóður FÍA kynnir með stolti hlaupastílsnámskeið með Þorbergi Inga Jónssyni. Þorbergur er einn fremsti hlaupari landsins í millivegalengdum og utanvegahlaupum og hefur slegið fjölda íslandsmeta í hlaupagreinum. Undanfarin ár hefur Þorbergur boðið upp á hlaupastílsnámskeið og fyrirlestra því tengdu. Námskeiðið er haldið þann 21 maí, frá kl. 12:00-14:00.
Námskeiðið fyrir SFÍA samanstendur af um klukkustundar löngum fyrirlestri og verður honum fylgt eftir með léttum æfingum og sprelli á íþróttavelli Breiðabliks, Fífunni. Sumarið er rétt handan við hornið og því ekki úr vegi að fá einn flottasta hlaupara landsins til að leiðbeina okkur. Þorbergur mun meðal annars kenna okkur rétta hlaupatækni ásamt því að leiðbeina okkur um æfingar og æfingakerfi til að styðjast við, hver sem markmið okkur eru.
Námskeiðið takmarkast við 30 þáttakendur og hægt er að skrá sig á námskeiðið með því að smella hér.
Skrifstofa lokuð frá 12:00 vegna stefnumótunar
Skrifstofa FÍA verður lokuð föstudaginn 10. maí frá klukkan 12:00 vegna stefnumótunar.
Námskeið í boði Starfsmenntasjóðs
Í samstarfi við Iðuna fræðslusetur býður Starfsmenntasjóður FÍA upp á tvö hjólaviðgerðarnámskeið fyrir hjólreiðafólk í hópnum.
Það fyrra er 8.maí og er hugsað fyrir byrjendur og/eða fólk sem ekki hefur mikið verið í viðgerðarhlutanum. Hið síðara er 23.maí sem hugsað er fyrir lengra komna og er eins konar framhaldsnámskeið af því fyrra. Á báðum námskeiðum er mælt með að koma með hjólin með sér.
Áhugasamir skrái sig á eftirfarandi hlekki; en hámark á hvort námskeiðið er 20manns.
Viðhald reiðhjóla I
Tími: 8. maí kl. 17-22
Staðsetning: Vatnagarðar 20
Kennari: Helgi Berg Friðþjófsson
Námslýsing: Farið verður í gegnum viðhald og umgengni á öllum hjólum. Skoðaðar verða stillingar á gírum, bremsum og hvernig á að yfirfara hjól til að tryggja að það sé ekki hættulegt að nota það.
Kynntir verða slitfletir og virkni gíra og mismunandi gírakerfa útskýrð. Skoðuð verða mismunandi bremsukerfi og virkni þeirra útskýrð.
Skráning: https://idan.is/fraedsla/nanar-um-namskeid/allotment/2019/05/08/Vidhald-reidhjola-I
Viðhald reiðhjóla II
Tími: 23. maí kl. 17-22
Staðsetning: Vatnagarðar 20
Kennari: Helgi Berg Friðþjófsson
Námslýsing: Skoðuð verða fjallajól og farið betur í samsetningu og fleira. Kynntar verða dempara uppsetningar. Tubeless dekkjaviðgerðir og uppsetning fyrir þær.
Kynnt verður hvaða dekk henta best og hverjir erum mismunandi kostir þeirra. Farið verður í viðhald á gjörðum og legum, Hvaða dekk í boði og mismunandi kostir þeirra.
Viðhald á gjörðum og legum. Námskeiðið er framhaldsnámskeið og farið er dýpra í alla þætti.
Skráning: https://idan.is/fraedsla/nanar-um-namskeid/allotment/2019/05/23/Vidhald-reidhjola-II
Auglýst eftir framboðum í stjórn EFÍA
Kjörnefnd Eftirlaunasjóðs FÍA (EFÍA) auglýsir nú eftir framboðum til stjórnarsetu í EFÍA kjörtímabilið 2019-2021.
Í kjölfar aukaársfundar EFÍA í febrúar síðastliðnum voru samþykktar breytingar á fyrirkomulagi í tengslum við skipan í stjórn EFÍA, meðal annars að fulltrúar FÍA í stjórn EFÍA verði kosnir af sjóðfélögum í beinni kosningu.
Samkvæmt greinum 4.1 og 4.1 a í samþykktum sjóðsins skulu sjóðfélagar kjósa tvo aðalmenn og einn varamann til stjórnarsetu í tvö ár. Þeir sem gefa kost á sér þurfa að uppfylla eftirfarandi:
- Vera sjóðfélagar í EFÍA.
- Vera fjárhagslega sjálfstæðir og búa yfir nægilegri þekkingu og starfsreynslu skv. 31. gr. laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, og 6. gr. reglna FME nr. 180/2013 og fullnægja að öðru leyti þeim kröfum sem gerðar eru um hæfi og hæfni stjórnarmanna skv. framangreindum lögum, reglum FME og samþykktum sjóðsins.
- Vera tilbúnir til að gangast undir hæfismat FME.
- Skila inn framboðsgögnum innan tilskilins tímafrests.
Áhugasamir geta gefið kost á sér með því að senda inn framboð og fylgigögn á netfang kjörnefndar, kjornefnd@efia.is. Sjá nánar um fylgigögn og aðrar upplýsingar á heimasíðu EFÍA hér
Frestur til að skila inn framboði er 7. maí 2019 kl. 17:00.
Hlutverk kjörnefndar
Í samræmi við grein 4.2 í samþykktum sjóðsins hefur stjórn EFÍA skipað kjörnefnd vegna fyrirhugaðs stjórnarkjörs á ársfundi sjóðsins 2019, en hana skipa Jónas Fr. Jónsson, Lára Sif Christiansen og Magnús Brimar Jóhannsson.
Markmiðið með störfum kjörnefndar er að tryggja sjóðfélögum EFÍA áreiðanlegri forsendur til að taka upplýsta ákvörðun um val í stjórn sjóðsins. Meðal hlutverka kjörnefndar er að hafa umsjón með framkvæmd stjórnarkjörs og leggja fram rökstutt mat á hæfi einstakra frambjóðenda til stjórnarsetu, mat nefndarinnar telst vera ráðgefandi.
Kjörnefnd mun auglýsa eftir og yfirfara framboð með tilliti til þeirrar hæfni og reynslu sem nauðsynleg er til stjórnarsetu í lífeyrissjóði sem og að teknu tilliti til samsetningar stjórnar og hvað varðar breidd í fjölbreytni, hæfni og reynslu.
Vegna atburða dagsins
Fréttir dagsins af WOW air minna okkur á hversu flugiðnaðurinn er fallvaltur og aðstæður breytast fljótt. Hugur okkar félagsmanna í FÍA er í dag hjá flugmönnum WOW air sem eru félagsmenn í Íslenska flugmannafélaginu og hafa nú misst vinnuna sem og öllum öðrum starfsmönnum WOW air.