Drónar á lofti
Drónar geta verið gagnleg tól og skemmtileg leikföng en aukin notkun þeirra getur þó haft neikvæð áhrif á flug, eins og tafir og lokanir á flugvöllum hafa nýverið sýnt. Því er mikilvægt að flugmenn þekki rétt viðbrögð þegar kemur að drónum. BALPA og GATCO hafa gefið út leiðbeiningar um hvernig bregðast skuli við þegar drónar sjást á lofti en þær er hægt að lesa á meðfylgjandi mynd. Nánari upplýsingar um dróna og áhrif þeirra á flug er m.a. að finna á vefsíðu ECA.
Sala á miðum hafin
Miðasala á hina árlegu ráðstefnu FÍA, Reykjavík Flight Safety Symposium, er nú hafin á midi.is. Miðaverði er að vanda stillt í hóf aðeins 2.900 kr., og er hádegishlaðborð innifalið.
Ráðstefnan, sem skipulögð er af öryggisnefnd FÍA, hefur skapað sér sess á undanförnum árum og laðar að sér fólk alls staðar að úr flugiðnaðinum. Í ár verður hún haldin þann 11. apríl frá kl. 09:00-16: 00 á Hilton Reykjavík Nordica, en fyrirlesarar eru:
- Ragnar Guðmundsson - RNSA
- Marika Melin - Karolinska Institutet
- Steinarr Bragason - Airline Electronics Engineering Committee
- Graham Braithwaite - Cranfield
- José-María Lorenzo - The European Satellite Services Provider (ESSP)
- Kristín Sigurðardóttir - Þróunarmiðstöð rannsóknarverkefna
Erindi og umræður fara fram á ensku.
Kjarasamningur við Mýflug samþykktur
Kosningu um nýjan kjarasamning Félags íslenskra atvinnuflugmanna og Mýflugs er nú lokið og var hann samþykktur með 10 atkvæðum. 11 manns eru á kjörskrá og tóku 10 þátt í kosningunni.
FÍA skrifaði undir kjarasamninginn við Mýflug á gamlársdag en samningurinn gildir til 30. júní 2020.
Við óskum þeim hjá Mýflugi til hamingju með samninginn.
Aðalfundur og framboðsfrestur
Aðalfundur Félags íslenskra atvinnuflugmanna verður haldinn á Grand Hótel, fimmtudaginn 28 febrúar, 2019, kl. 20:00-23:00.
Á aðalfundi verða varaformaður og þrír meðstjórnendur kosnir. Framboðsfrestur rennur út þann 7. febrúar en framboð skulu berast skriflega til framkvæmdastjóra FÍA á netfangið lara@fia.is. Framkvæmdastjóri tekur við framboðum fyrir hönd stjórnar og kemur áleiðis til stjórnar og kjörstjórnar.
Sé gengið út frá óbreyttri samsetningu stjórnar getur enginn þriggja meðstjórnenda verið úr hópi Icelandair, með vísan til 16. greinar laga FÍA. Verði nýr varaformaður kosinn, sem ekki vinnur fyrir Icelandair, getur eitt af þessum þremur meðstjórnarsætum farið til Icelandair.
Frambjóðendum mun gefast kostur á að kynna sig og stefnumál sín í pistli sem birtist í Fréttabréfi FÍA. Við hvetjum alla þá sem hafa áhuga á að taka þátt í starfinu að íhuga framboð.
Svefntími fólks í vaktavinnu
Miðvikudaginn 16. janúar, kl. 12-14, stendur Starfsmenntasjóður FÍA fyrir áhugaverðum hádegisfyrirlestri þar sem dr. Erla Björnsdóttir fer yfir helstu þætti er varða svefntíma fólks í vaktavinnu.
Við bendum jafnframt á að erindið verður endurtekið þriðjudaginn 5. febrúar.
Erla Björnsdóttir er stofnandi og stjórnarformaður Betri svefns. Hún lauk B.A prófi í sálfræði frá Háskóla Íslands 2007 og kandídatsprófi frá Háskólanum í Árósum 2009. Erla lauk svo doktorsprófi í líf-og læknavísindum frá Háskóla Íslands í janúar 2015. Í doktorsnámi sínu rannsakaði hún svefnleysi, andlega líðan og lífsgæði hjá sjúklingum með kæfisvefn.
Erla hefur sérhæft sig í hugrænni atferlismeðferð við svefnleysi (HAM-S) og vinnur að rannsóknum á því sviði ásamt samstarfsmönnum í Evrópu og Bandaríkjunum. Hún hefur birt fjölda greina í erlendum ritrýndum tímaritum og einnig skrifað um svefn á innlendum vettvangi og er höfundur bókarinnar Svefn, sem kom út árið 2017.
Nýr samningur við Mýflug
Félag íslenskra atvinnuflugmanna skrifaði undir nýjan kjarasamning við Mýflug á gamlársdag en samningurinn gildir til 30. júní 2020.
Samninganefnd mun kynna samninginn á mánudag og þriðjudag næstkomandi en í kjölfar þess hefjast kosningar.
Opnun um hátíðarnar
Skrifstofa FÍA verður lokuð milli jóla og nýárs. Gleðilega hátíð!
Gleðilega hátíð!
Við óskum þér og þínum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári og þökkum samstarfið á árinu sem er að líða.
Fréttabréf í nýjum búningi
Desember tölublað Fréttabréfs FÍA er nú komið út. Fréttabréfið hefur tekið þónokkrum útlitsbreytingum en vitaskuld er efniviðurinn það sem skiptir máli.
Frettabref_12_2018.pdf
Meðal greina í blaðinu eru:
- Fréttir frá öryggisnefnd og pistill um samgönguáætlun
- AVIADORAS: Nýstofnaður alþjóðlegur vinnuhópur kvenflugmanna
- Skipting ellilífeyrisréttina: Er það eitthvað fyrir okkur?
- "Brennivínsnefndin" - Pistill frá stoðnefnd um mikilvægan stuðning
- Fróðlegir fréttamolar úr starfi FÍA
Ernir skrifar undir kjarasamning við FÍA
Fulltrúar FÍA og Flugfélagsis Ernis skrifuðu undir kjarasamning, mánudaginn, 10. desember. Í kjölfarið hófst rafræn atkvæðagreiðsla, sem stendur í viku.
Mynd, frá vinstri: Unnar Hermannsson (Ernir), Ásgeir Örn Þorsteinsson (Ernir), Magni Snær Steinþórsson formaður samninganefndar FÍA, Snorri Geir Steingrímsson (FÍA), Sigurður Egill Sigurðsson (FÍA).
Tillögur um rekstur flugvalla
Starfshópur sem hafði það hlutverk að móta tillögur um uppbyggingu flugvallakerfisins á Íslandi og eflingu innanlandsflugs sem almenningssamgangna skilaði skýrslu til samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra í byrjun desember.
Í skýrslunni eru gerðar tillögur um breytingar á fyrirkomulagi innanlandsflugs og rekstri flugvalla og að innanlandsflug verði hagkvæmur kostur fyrir íbúa landsbyggðarinnar.
Lagðar eru fram tillögur um að auka fjárhagslega sjálfbærni þeirra flugvalla, sem gegna hlutverki sem varaflugvellir í millilandaflugi, með því að skilgreina þá sem kerfi flugvalla með sameiginlegan kostnaðargrunn og Isavia ohf. falin fjárhagsleg ábyrgð á rekstri, viðhaldi og uppbyggingu þeirra. Lagt er til að þjónustugjöld verði samræmd á millilandaflugvöllunum og hóflegt þjónustugjald sett á til að standa straum af uppbyggingu vallanna. Mikilvægi öryggishlutverks varaflugvalla tengt millilandaflugi hefur aukist og starfshópurinn telur nauðsynlegt að taka tillit til breyttra aðstæðna á grundvelli þróunarinnar undanfarin ár.
Þá er lagt til að þjónustusamningur ríkisins við Isavia verði framvegis gerður til fimm ára í senn til svo að hægt verði að þróa flugvallakerfið til lengri tíma og stuðla að aukinni dreifingu ferðamanna.
Starfshópurinn leggur til að tillögurnar verði útfærðar nánar á næsta ári svo þær geti komið til framkvæmda árið 2020.
Ernir tekur nýja flugvél í notkun
Í desember tók Flugfélagið Ernir í notkun flugvél af gerðinni Dornier 328. Vélin rúmar 32 farþega auk þriggja manna áhafnar og mun sinna áætlunarflugi á leiðum félagsins auk tilfallandi verkefna innanlands og utan.
„Við bindum vonir til þess að aukinn sætafjöldi skili hagkvæmni á ákveðnum leiðum og möguleika félagsins til að bjóða hagstæðari fargjöld en hægt hefur verið. Allt fer það þó eftir kaupum, kjörum og aðstæðum á okkar örmarkaði, “ segir Hörður Guðmundsson, forstjóri Ernis en til þessa hefur félagið haft að skipa fjórum 19 farþega flugvélum af Jetstream 31/32 gerð.
Flugfélagið Ernir er elsta starfandi flugfélag hér á landi, og er enn stjórnað af stofnendum þess frá árinu 1970. Ernir heldur úti áætlunarflugi til fimm áfangastaða á landsbyggðinni auk Reykjavíkur. Það eru Vestmannaeyjar, Höfn Hornafirði, Húsavík, Gjögur og Bíldudalur.