Fréttir

04. maí 2017

Mikilvægi varaflugvalla á Íslandi

Flugatvik varð á Keflavíkurflugvelli í síðustu viku og lokaðist völlurinn af þeim sökum um nokkurn tíma. Aðeins hluti annarar af tveimur flugbrautum vallarins var í notkun vegna framkvæmda við viðhald og endurnýjun á flugbrautum og akstursbrautum.

Þegar Keflavíkurflugvöllur lokast skyndilega gegna flugvellirnir í Reykjavík, á Egilsstöðum og Akureyri þýðingarmiklu hlutverki sem varaflugvellir. Með sívaxandi umsvifum á Keflavíkurflugvelli þarf að huga betur að getu þeirra til að sinna því hlutverki. Á Reykjavíkurflugvelli eru flugbrautir stuttar og veðurfar svipað og í Keflavík. Lokist Keflavíkurflugvöllur vegna veðurs á það sama iðulega við um Reykjavíkurflugvöll. Í besta falli er pláss fyrir fjórar farþegaþotur á hvorum stað á flugvöllunum á Akureyri og Egilsstöðum. Það er því orðið mjög brýnt að stækka flughlöðin á þessum völlum til að fyrirbyggja að háskalegt ástand geti skapast. Síðustu ár hefur efni úr Vaðlaheiðargöngum verið flutt á Akureyrarflugvöll til að stækka flughlaðið en ríkið hefur því miður ekki tryggt fjármagn til að ljúka framkvæmdunum.

Félag íslenskra atvinnuflugmanna FÍA skorar á ríkisvaldið að huga að framkvæmdum við stækkun flughlaða á Akureyri og Egilsstöðum. Flugvél sem lendir á Keflavíkurflugvelli og notar Reykjavíkur-, Akureyrar- eða Egilsstaðaflugvöll sem varaflugvöll greiðir einungis lendingargjöld í Keflavík. Eðlilegt er að nýta hluta þeirra tekna til framkvæmda og viðhalds á varaflugvöllunum. Þeir eru mikilvægir hlekkir í þeirri keðju flugsamgangna sem íslensku alþjóðaflugvellirnir fjórir eru.

Stjórn FÍA

Öryggisnefnd FÍA

Lesa meira
13. sep 2016

Fréttabréf FÍA komið út september 2016

Fréttabréf FÍA fyrir September 2016 kom út í dag þar sem farið er yfir það helsta sem er á döfinni hjá félaginu.

Helstu fréttir eru atvinnumál FÍA flugmanna, alþjóðasamstarf, EFÍA, skilaboð frá Skýjaborgum, ný útgáfa af FÍA appinu ásamt fróðleik um heilsuvernd og öryggismál. Félagsmenn eru hvattir til að kynna sér innihald blaðsins ásamt því að koma á framfæri við skrifstofu FÍA hugmyndum að efni í næsta fréttabréf.

Lesa meira