Fréttir

30. sep 2013

Þristurinn 70 ára 1. október 2013

Í tilefni af því að liðin eru 70 ár frá því Þristinum TF-NPK var rennt út úr verksmiðju Douglas í Bandaríkjunum efna DC-3 Þristavinir til afmælishátíðar í Flugsafninu á Akureyri þriðjudaginn 1. október klukkan 17 til 19 næstkomandi. Hátíðin er öllum opin og er flugáhugafólk hvatt til að sækja hana.

Greint verður frá tilurð og sögu DC-3 hjá bandarísku Douglas verksmiðjunum, þessari þekktu flugvél sem þjónaði í farþega- og flutningaflugi um heim allan fyrir og eftir síðari heimsstyrjöld. Þá verður fjallað um hlutverk Þristsins í samgöngu- og landgræðslusögu Íslendinga og sýnd mynd um Þristinn í landgræðslu. Þristurinn sem skráður var á Íslandi árið 1946 sem TF-ISH og ber nú einkennisstafina TF-NPK og heitir núna Páll Sveinsson. Fyrst eftir að hún kom til Íslands var hún notuð af her Bandaríkjanna, var síðar í eigu Flugfélags Íslands sem notaði hana til innanlandsflugs og flugs til Grænlands. Á síðasta æviskeiði sínu í formlegri vinnu sinnti hún landgræslu í 33 sumur og lauk því verkefni árið 2006. Nú er hún í umsjá DC-3 Þristavina og notuð til sýningar- og kynningarflugs. Er vélin einstaklega vel á sig komin enda góður hópur tæknimanna, flugmanna og annarra sem sér um að halda henni gangandi með góðum stuðningi fjölmargra aðila. Á hátíðinni verður boðið upp á kaffiveitingar og Páll Sveinsson verður til sýnis í Flugsafni Íslands þar sem segja má að heimili hennar sé.

Þristavinir hvetja alla sem mögulega geta til að sækja hátíðina. Flugfélag Íslands býður afslátt og skulu bókanir fara fram gegnum netpóstinn hopadeild@flugfelag.iseða í síma 570 3075.

Lesa meira
12. sep 2013

Yfirlýsing vegna Reykjavíkurflugvallar

Svo virðist vera að stefna borgarstjórnar Reykjavíkur sé að gera Reykjavíkurflugvöll óstarfhæfan, án þess að hafa haldbæra lausn á því vandamáli. Ekki hefur verið tekið tillit til álits fagaðila í þessu umfangsmikla máli þrátt fyrir skýrslur og ráðstefnur um málið.

FÍA undrast þá stefnu borgarstjórnar Reykjavíkur að vega að atvinnustarfsemi og störfum í Reykjavík, bæði vegna félagsmanna sinna, sem og annarra. Á þetta ekki síst við í ljósi þess efnahagsástands sem við búum við. Með fyrirhugaðri lokun flugbrautar eða flugvallarins í heild sinni tapast störf og starfsemi þeirra fyrirtækja er þar starfa. Bein afleiðing þess er aukið atvinnuleysi og minnkandi tekjur.

Hugmyndir um að loka annarri aðalflugbraut Reykjavíkurflugvallar, eins og gert hefur verið ráð fyrir í aðalskipulagi Reykjavíkurborgar, þýðir einfaldlega að nýtingarstuðullinn fer niður fyrir þann sem ásættanlegur er til flugreksturs og mun marka endalok flugreksturs í Reykjavík sem við þekkjum í dag. Að loka Reykjavíkurflugvelli án þess að hafa annan sambærilegan flugvöll í hans stað er óábyrgt.

FÍA undrast að enn og aftur beinist umræðan að flugvelli á Hólmsheiði sem fýsilegum kosti, þrátt fyrir að fram hafi komið upplýsingar um að Hólmsheiði uppfylli alls ekki kröfur sem gerðar eru til flugvallarstæðis. Þar má nefna skýrslu Isavia um hugsanlegan flutning vallarins á Hólmsheiði.

Ennfremur bendir FÍA á að Reykjavíkurflugvöllur gegnir mikilvægu hlutverki sem varavöllur fyrir Keflavíkurflugvöll. Að sama skapi gegnir Keflavíkurflugvöllur mikilvægu hlutverki sem varavöllur fyrir Reykjavíkurflugvöll, sem er forsenda fyrir innanlandsflugi um Reykjavíkurflugvöll.

Ljóst er að ef innanlandsflug og sjúkraflug, eins og við þekkjum í dag, eigi að vera til staðar í framtíðinni, þarf til þess flugvöll og er enginn annar hentugri en sá sem fyrir er í Vatnsmýrinni, enn sem komið er. Einnig vill FÍA minna á að Reykjavíkurflugvöllur gegnir mikilvægu hlutverki í almannavörnum Íslands.

FÍA lýsir yfir eindregnum stuðningi við hópinn „Hjartað Í Vatnsmýri" og hvetur alla landsmenn til að kynna sér efnið á síðunni www.lending.is.

Lesa meira
19. ágú 2013

Reykjavíkurflugvöll áfram í Vatnsmýri

Félagið Hjartað í Vatnsmýri hefur hafið undirskriftasöfnun á vefslóðinni www.lending.is þar sem skorað er á borgarstjórn Reykjavíkur og Alþingi að tryggja óskerta flugstarfsemi í Vatnsmýri. Undirskriftir verða afhentar borgarstjórn áður en frestur til að gera athugasemdir við tillögu að nýju aðalskipulagi Reykjavíkur rennur út
þann 20. september nk., en sem kunnugt er gerir skipulagstillagan ráð fyrir að flugvöllurinn víki úr Vatnsmýri
innan skamms.

Stjórn FÍA er einn af þeim sem stofnuðu til þessa átaks og skorar því á félagsmenn sína og landsmenn alla að kynna sér þetta málefni og hvetur alla til að skrifa á undirskriftalistann. Jafnframt eru allir hvattir til að safna sem flestum undirskriftum!

Auk vefsíðunnar verða undirskriftalistar aðgengilegir um land allt, jafnframt því sem miklir hagsmunir landsmanna allra af óbreyttri flugstarfsemi í Vatnsmýri verða kynntir víða um land með áberandi hætti á næstunni.

Mikið hefur verið ritað og rætt um þetta mál á undanförnum árum og flestum ljóst um hvað málið snýst, en skerpt verður á því á næstunni. Í hnotskurn má segja, að nokkur hópur íbúa Reykjavíkur telji það réttlætanlegt að hætta flugstarfsemi í Vatnsmýri til þess að koma þar upp íbúabyggð. Það er mat stjórnar félagsins Hjartað í Vatnsmýri eins og stórs hluta landsmanna að það sjónarmið sé illa ígrundað og ákvörðun í þá veru gengi beinlínis gegn hagsmunum landsmanna flestra, þar á meðal og ekki síst Reykvíkinga sjálfra.

Innanlandsflug yrði tæplega flutt annað en til Keflavíkur. Við það tapast fjöldi starfa í Reykjavík, ferðatími milli Reykjavíkur og landsbyggðar eykst til muna svo og kostnaður flugfarþega, hvort sem eru Reykvíkingar, aðrir landsmenn eða ferðamenn. Sú nokkuð víðtæka sátt sem verið hefur um að byggja upp sérhæfða þjónustu í Reykjavík fyrir landsmenn alla mun bíða hnekki. Þar má nefna stjórnsýsluna, menntastofnanir, fjármálaþjónustu og síðast en ekki síst heilbrigðisþjónustuna og þá sérstaklega bráðamóttöku, sem útilokað er að sé fjarri flugvelli. Í því sambandi er rétt að undirstrika sérstaklega, að rúmlega 600 sjúkraflug fara um Reykjavíkurflugvöll á ári hverju. Það eru um tólf flug í viku hverri árið um kring.

Fjölmörg önnur atriði til stuðnings staðsetningu flugvallar í Vatnsmýri má nefna, en þeim hafa bæði verið gerð góð skil í blaðagreinum, viðtölum og umræðum í borgarstjórn, á Alþingi og víðar og verða jafnframt gerð betri skil síðar.

Um félagið
Félagið Hjartað í Vatnsmýri var stofnað þann 8. júlí 2013 í þeim tilgangi að berjast fyrir því mikilvæga hagsmunamáli landsmanna allra að tryggja óskerta flugstarfsemi í Vatnsmýri. Í stjórn félagsins eru 14 einstaklingar víða af landinu og formenn eru þeir Friðrik Pálsson, hótelhaldari og Njáll Trausti Friðbertsson, flugumferðarstjóri.

Vefslóð: http://www.lending.is

Frekari upplýsingar
Allar frekari upplýsingar veita formenn félagsins:

Friðrik Pálsson, hótelhaldari, 892-­‐1464
Njáll Trausti Friðbertsson, flugumferðarstjóri, 861-­‐9373

Lesa meira