Fréttir

15. júl 2011

Yfirlýsing frá FÍA

Stjórn og samninganefnd FÍA lýsa furðu sinni yfir yfirlýsingum Samtaka ferðaþjónustunnar og minna jafnframt á að flugmenn eru ekki að fara í verkfall, heldur yfirvinnubann, sem þýðir að menn mæta til vinnu bæði á uppsettar vaktir sem og bakvaktir. Þau tilfelli sem flugmenn vinna ekki eru ef reynt er að kalla þá af frívöktum. Ef slíkt kemur upp í einhverjum mæli er það vísbending um að fyrirtækið sé ekki nægilega vel mannað en samkvæmt þeim samningi sem nú er unnið eftir, er reiknað með að fyrirtækið skuli manna sig rétt til að manna allar vaktir og 10% betur til að standa straum af óvæntum atriðum, s.s. veikindum eða öðrum þáttum sem verða til þess að vaktir breytast.

FÍA minnir jafnframt á að það eru fleiri aðilar við samningaborðið en þeir einir og vísa ábyrgð á stöðunni til viðsemjenda sem ekki vilja ljá máls á þeim einföldu atriðum sem óskað er eftir að verði lagfærð sem öll eru hluti af títtnefndu starfsöryggismáli. FÍA gerir sér grein fyrir því að sveiflur eru í ferðaþjónustunni hérlendis sem og í öðrum löndum. Staðreyndin er sú að allflest erlend flugfélög taka ekki svona á starfsmannamálum sínum, heldur er öllum haldið í vinnu yfir þann tíma sem minna er að gera, svo fremi sem ljóst þyki að eingöngu sé um árstíðasveiflu að ræða, hvers vegna þarf Icelandair, fyrirtæki sem hefur verið að skila methagnaði, að láta starfsfólk taka á sig þessa sveiflu, er sjálfgefið að starfsmenn séu launalausir vetur eftir vetur til þess eins að hluthafar geti fengið afrakstur sumarvinnu þeirra í vasann?

Mikið er talað um að flugmenn séu hálaunamenn en alltaf gleymist í þeirri umræðu að flugnám kostar í dag a.m.k. 12 milljónir og er ekki lánshæft nema að litlum hluta, menn horfa svo til þess að fá eingöngu vinnu í 3-6 mánuði á ári fyrstu 6-8 árin, það er reikningsdæmi sem illa gengur upp. Varðandi laun þessara manna sem við þetta búa þá eru grunnlaun þeirra á milli 4 og 500 þúsund að viðbættu vaktaálagi, það þýðir árslaun upp á um 1,5 - 3 milljónir auk vaktaálags á ári miðað við það starf sem þetta ágæta fyrirtæki er að bjóða þeim uppá.

Það ítrekast hér að Félag íslenskra atvinnuflugmanna hefur gengið að þeim launahækkunum sem Samtök atvinnulífsins bjóða uppá og bundnar voru vonir til þess að komið yrði til móts við þennan hóp í einhverjum skrefum varðandi að lagfæra þetta óviðunandi ástand sem nú varir varðandi störf þessa hóps sem ekki getur tryggt sér og fjölskyldum sínum viðunandi lífsskilyrði miðað við þann kostnað sem til féll við að koma sér í þetta starf hjá okkar ágæta fyrirtæki.

FÍA skorar á SA og Icelandair að opna augun fyrir raunveruleikanum og stíga hænuskref í átt til þessa hóps sem ætlar með stolti að vinna hjá fyrirtækinu, eflaust flestir til starfsæviloka ef þeim er gert það klefit með ofangreindum lagfæringum. Jafnframt skorar félagið á Samtök ferðaþjónustunnar að líta í eigin barm og hvetja aðildarfélög sín að búa starfsfólki kjör sem hægt er að búa við allt árið!

Lesa meira
15. jún 2011

Skorum á EU að setja öryggi farþega í fyrsta sæti!

Fréttatilkynning frá ECA, European Cockpit Association (Evrópusamband atvinnuflumannafélaga):

- Flugmenn krefjast öruggra, vísindalegra hvíldarreglna

Skrifað í Luxemburg þann 15. júní 2011.

Flugmenn hvaðanæva að úr Evrópu koma saman á morgun 16. júní fyrir utan samgönguráðuneyti Evrópusambandsins í Luxemburg til að krefja samgönguráðherra Evrópu um að setja öryggi farþega í fyrsta sæti við setningu nýrra hvíldartímareglna sem fyrirhugaðar eru fyrir alla flugmenn í Evrópu. Þegar þreyta flugmanna er hugsanlegur orsakavaldur í 15-20% allra alvarlegra flugslysa geta ráðherrarnir ekki horft undan því að ný drög að reglugerðum um málefni fara á engan hátt eftir þeim rannsóknum og staðreyndum sem liggja fyrir eftir áratuga reynslu.

Ef þau drög sem fyrir liggja breytast ekki verulega – í takt við vísindalegar staðreyndir – munu hvíldartímareglurnar draga verulega úr því flugöryggi sem Evrópa státar af í dag, á kostnað almennra ferðamanna.

Með mótmælastöðunni fyrir framan ráðuneytið munu atvinnuflugmennirnir láta í ljósi áhyggjur sínar yfir öryggi í tengslum við þau drög að hvíldartímareglugerð sem lögð voru fram í desember 2010 og voru gerð án tillits til niðurstöðu vísindamanna um málefnið, þrátt fyrir lagalega skyldu um að taka tillit til þeirra.

Með því að dreifa þúsundum bæklinga í miðborg Luxemborgar og halda blaðamannafund vilja flugmenn kalla alla samgönguráðherra Evrópusambandsins til ábyrgðar og vekja athygli á eftirfarandi:.

? Vaknið og gerið ykkur grein fyrir þeirri hættu sem flugmannaþreyta er fyrir ferðamenn

? Styðjið ESB reglugerð byggða á vísindalegum niðurstöðum til að minnka þessa áhættu

? Sjáið til þess að þau drög sem nú eru á boðinu breytist í takt við niðurstöður vísindamanna.

„Langar vaktir og stuttur svefn flugmanna getur verið dauðans alvara, ef ekki er sett tilhlýðileg reglugerð byggð á vísindalegum grunni til að stuðla að sem mestu öryggi." segur forseti ECA, Evrópska flugmannasambandsins, Nico Voorbach. „Þeir fimmtíu sem týndu lífi sínu fyrir tveimur árum í flugslysinu hjá Colgan Air (USA) eru sorgleg áminning til Evrópuráðherra um að við eigum ekki að bíða eftir dauðaslysi til að átta okkur á þörfinni á reglugerð byggðri á vísindaniðurstöðum sem þó liggja fyrir hjá ráðuneytinu. Eftir þetta slys brugðust bandarísk yfirvöld hratt við og munu kynna nýjar reglur í ágúst á þessu ári, sem munu byggja á slíkum niðurstöðum."

„Hér í Evrópu virðast stofnanir ekki hafa vaknað upp til að bregðast við þessum þreytuþætti í þágu farþega" bætir Philip von Schöppenthau, framkvæmdastjóri ECA, við. „Fjöldi sannana frá vísindamönnum liggja fyrir, þar á meðal rannsókn unnin á vegum EASA (flugöryggisstofnun Evrópu) sjálfrar. En sú reglugerð sem EASA leggur fram er öllu fremur hönnuð til að skera niður kostnað flugfélaganna í stað þess að huga að öryggi farþega. Við erum sammála því að Evrópa þarf að vera samkeppnishæf í flugiðnaðinum, en ættum ekki undir neinum kringumstæðum að láta hagnaðarsjónarmið ráða ferðinni og öryggissjónarmiðin víkja, það eru grunnréttindi farþega eða geta treyst því að flug sé öruggur ferðamáti."

ECA samanstendur af 38.650 flugmönnum og hafnar núverandi drögum að nýrri hvíldartímareglugerð flugmanna og krefur ráðherra ESB til að sjá til þess að EASA breyti sínum drögum í takt við vísindalegar niðurstöður um þreytu.

Nánari upplýsingar:

http://www.eurocockpit.be

Lesa meira