Niðurstöður Stjórnarkjörs FÍA 2024
Á aðalfundi FÍA í gærkveldi lágu úrslit kosninga um stjórnarkjör í FÍA fyrir. Kosningaþáttaka var afar góð en um 72,64% sem voru á kjörskrá tóku þátt en
félagsmenn gátu kosið að þessu sinni. Aðalfundurinn fór fram að þessu sinni í höfuðstöðvum FÍA og var salurinn þéttsetinn.
Úrslit stjórnarkjörs FÍA eru:
Jón Þór Þorvaldsson, kjörinn formaður til næstu tveggja ára.
Meðstjórnendur til næstu tveggja ára eru;
Elí Úlfarsson (ICE) - 62,67%
Örnólfur Jónsson (ICE) - 60%
Guðmundur Óskar Bjarnason (ICE) - 59,83%
Högni Björn Ómarsson - 50,67%
Vala Gauksdóttir (FÍ) - 48,83%
Kristinn Alex Sigurðsson - 37,83%
Samkvæmt 16. gr. laga geta aðeins fimm félagsmenn frá hverjum samningsaðila FÍA geta tekið sæti í stjórn hverju sinni. Þar sem félagmenn frá Icelandair fylltu kvótann sinn í þessum er Vala sjálfkjörin í stjórn FÍA.
Félagsmenn FÍA óskar þeim til hamingju með kjörið og og óskar þeim velfarnaðar í störfum sínum.
Þeir stjórnarmenn sem hætta í stjórn eru Gunnar Björn Bjarnason, Högni Björn Ómarsson, Sara Hlín Sigurðardóttir og Steindór Ingi Hall. Félagsmenn FÍA þakkar þeim fyrir mikið og óeigingjarnt starf í þágu atvinnuflugmanna.
Fyrir eru í stjórn: Guðmundur Már Þorvarðason, varaformaður, G. Birnir Ásgeirsson, Haraldur Helgi Óskarsson, Jóhannes Jóhannesson meðstjórnendur.
Lögfræðiteymi FÍA stækkar
Anna Lilja Hallgrímsdóttir hefur verið ráðin til starfa sem lögfræðingur hjá Félagi íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) og hóf hún störf 1. desember. Fyrir er Sonja Bjarnadóttir Backmann.
Síðan árið 2012 hefur hún starfað sem lögfræðingur hjá Lögmannafélagi Íslands þar sem hún sinnti m.a. eftirliti með því að lögmenn uppfylltu starfstengdar skyldur sínar, starfaði fyrir laganefnd félagsins og úrskurðarnefnd lögmanna, skipulagði viðburði ásamt því að vera upplýsingafulltrúi gagnvart samtökum evrópskra lögmannafélaga.
Anna Lilja er útskrifaður lögfræðingur frá Háskólanum í Reykjavík en hún lauk BA prófi í lögfræði árið 2010 og meistaranámi árið 2012. Þá hlaut hún málflutningsréttindi fyrir héraðsdómstólum árið 2014. Samhliða námi starfaði hún hjá Creditinfo og Bæjarskrifstofum Garðabæjar ásamt því að vera starfsnemi hjá Mörkinni lögmannsstofu og Ríkissaksóknara.
Anna Lilja er 36 ára Kópavogsbúi og er gift Úlfari Frey Jóhannssyni lögfræðingi og eiga þau saman þrjár dætur á aldrinum 10 mánaða til 10 ára. Hennar helstu áhugamál eru samvera með fjölskyldunni, ferðalög og hundurinn Perla.
Stjórn býður Önnu velkomna til starfa og óskar henni velfarnaðar í starfi.
EASA óskar eftir þátttöku og áliti evrópskra flugmanna
Minimum Crew Operations (eMCO) / Single Pilot Operations (SiPO) -Könnun-
EASA vinnur nú að öflun gagna frá flugmönnum vegna innleiðingar á Minimum Crew Operations (eMCO) og Single Pilot Operations (SiPO).
EASA hefur því gefið út stutta könnun sem unnin er í samstarfi við hollensku stofnunina NRL, eða Royal Netherlands Aerospace Centre.
Með þessari könnun er meðal annars verið að afla gagna um þreytu, veikindi flugmanna við störf, einveru í stjórnklefa en einnig er leitað eftir áliti flugmanna á hugmyndafræði eMCO og SiPO.
Könnunin inniheldur 31 spurningu sem flestar eru fjölvalsspurningar.
Um það bil 15 mínútur tekur að svara og er okkar innlegg gríðarlega mikilvægt!
Opið er fyrir svör til 14. desember.
Smellið hér til þess að taka þátt: survey.nlr.nl
Paul Allen kosinn í stjórn ECA
Paul Allen, flugstjóri hjá Air Atlanta hefur verið kosinn í stjórn Evrópska flugmannasambandsins ( e. European Cockpit Association) á nýafstaðinni ráðstefnu sambandsins í Brussel.
Paul er fyrstur íslenskra flugmanna sem kjörinn er í stjórn ECA, en stjórnina skipa 6 aðilar. Hann er menntaður flugvirki og flugmaður og hefur áratuga reynslu úr störfum sínum sem flugmaður og síðar flugstjóri frá árinu 1994. Paul er einnig með mastersgráðu í flugöryggismálum frá Háskólanum í London og er viðurkenndur af ICAO sem rannsakandi flugslysa.
Paul hefur sinnt nefndarstörfum í Alþjóðanefnd FÍA undanfarin ár við góðan orðstír og kosning hans í hlutverk Director Professional Affairs ekki einungis staðfesting á framúrskarandi starfi hans í þágu félagsmanna FÍA á alþjóðavettvangi sl. ár, heldur er kosningin einnig mikilvæg viðurkenning á því starfi sem aðilar í nefndum FÍA vinna í þágu félagsmanna.
Stjórn FÍA óskar Paul Allen til hamingju með kosninguna og óskar honum velfarnaðar í störfum sínum hjá ECA.
"The European Cockpit Association (ECA) was created in 1991 and is the representative body of European pilots at European Union (EU) level. It represents over 40,000 European pilots from the National pilot Associations in 33 European states."
"The European Cockpit Association represents the collective interests of professional pilots at European level, striving for the highest levels of aviation safety and fostering social rights and quality employment."
Broken safety: Heimildamynd um stöðu flugöryggis í Evrópu
Við mælum með að gefa ykkur tíma og horfa á þessa heimildamynd frá ECA þar sem Evrópskir flugmenn tala um stöðu flugöryggis í Evrópu.
"European pilots and cabin crew feel strongly that flight safety is no longer the primary concern of the European Aviation Safety Agency (EASA) and of some industry stakeholders. In a compelling new documentary, aviation professionals express their fears and profound disappointment with the state of aviation safety in Europe."
Félagsfundur FÍA
Félagsfundur FÍA verður haldinn miðvikudaginn 6. desember n.k kl. 20.00. Fundurinn verður haldinn í Grjótnesi, fundarsal FÍA í Hlíðarsmára 8.
Dagskrá fundar:
- Kjaramál
- Heiðrun félaga sem hafa lokið störfum á árinu.
- Kynning á fyrirhugaðri innri og ytri stefnumótun.
- Kaup á fasteign
Léttar jólaveitingar verða í boði. Félagsmenn eru hvattir til að mæta.
*English*
FIA union meeting will be held on Wednesday December 6th, at 20.00 in Grjótnes which is located in FIA headquarters, Hlíðasmári 8.
Agenda
- Labour agreements.
- Honouring retirees.
- Introduction on FÍA´s strategic planning.
- Investing of future Headquarters.
Refreshments will be available. All members are encouraged to attend.
Flugskóli Reykjavíkur gerir kjarasamning við FÍA

Flugskóli Reykjavíkur og FÍA undirrita kjarasamning.
Að mati okkar hjá FÍA er mikilvægt að hér á landi séu starfræktir flugskólar og að framtíðar flugmenn geti þar lært af reynslumiklum kennurum hvort sem er til einkaflugmanns eða atvinnuflugmannsréttinda.
Í byrjun þessa árs var undirritaður tímamótasamningur fyrir flugkennara hjá Geirfugli og Flugakademíu Íslands, en síðarnefndi skólinn hætti starfsemi í sumar.
Sá kjarasamningur er tvískiptur og tekur mið af þörfum ólíkra flugskóla en jafnframt er þess gætt að flugkennurum sé greitt fyrir alla vinnu, hvort sem hún er á jörðu niðri eða á flugi.
það hefur verið ánægjulegt að fylgjast með metnaðarfullum áformum þeirra sem standa að rekstri Flugskóla Reykjavíkur, en öllum flugkennurum sem áður störfuðu hjá Flugakademíu Íslands hefur nú verið boðið starf þar.
Í gær staðfestu fulltrúar FíA og Flugskóla Reykjavíkur kjarasamning og gildir hann til og með 31.12.2028
Með kjarasamningnum fjölgar félagsmönnum í FÍA og Flugskóli Reykjavikur verður leiðandi afl í menntun atvinnuflugmanna framtíðarinnar.
Við hjá FíA óskum flugkennurum og stjórnendum alls hins besta og erum stoltur samstarfsaðili Flugskóla Reykjavikur.
Skrifstofa FÍA lokuð 12. október
Skrifstofa FÍA er lokið fimmtudaginn 12. október vegna Reykjavík Flight Safety Symposium. Ef erindið þolir ekki bið má senda póst á fia@fia.is.
Umsögn ÖFÍA vegna aðalskipulags BIKF
Nýlega sendi Öryggisnefnd FÍA frá sér umsögn vegna Þróunaráætlunar Keflavíkurflugvallar og Skipulags- og matlýsingar, endurskoðun á aðalskipulagi Keflavíkurflugvallar 2023-2040. Flugöryggi og flugrekstraröryggi eiga að vera í algjörum forgangi í allri áætlanagerð á alþjóðaflugvöllum. Hér að neðan má lesa umsögn ÖFÍA í heild.
ECA gagnrýnir íslensk stjórnvöld
Samtök atvinnuflugmanna í Evrópu (European Cockpit Association eða ECA) hafa gefið frá sér ályktun þar sem vinnubrögð íslenskra stjórnvald er varðar gerviverktöku í flugi eru gagnrýnd harðlega. Ályktunin var send á bæði Vinnumálastofnun og félags – og vinnumarkaðsráðuneytið.
Kveikjan er uppsögn flugmanna Bláfugls (Bluebird Nordic) í lok árs 2020 og ráðning gerviverktaka í þeirra stað. Uppsagnirnar voru í kjölfarið dæmdar ólögmætar af Félagsdómi en þrátt fyrir það hefur Bláfugl í engu breytt atferli sínu né heldur hafa íslensk stjórnvöld brugðist við ítrekuðum umleitunum FÍA um að bregðast við áframhaldandi lögbrotum Bláfugls.
„Atferli Bláfugls, með dyggum stuðningi Samtaka atvinnulífsins og íslenskra stjórnvalda, setur vitaskuld skelfilegt fordæmi fyrir íslenskan vinnumarkað: Fyrirtæki geta nú refsilaust rekið allt kjarasamningsbundið starfsfólk á einu bretti og ráðið gerviverktaka í staðinn,“ segir Sonja Bjarnadóttir Backman, lögfræðingur FÍA, og bætir við að um þessar mundir sé skaðabótmál fyrrum flugmanna Bláfugls fyrir dómstólum.
Flugmenn uppfylla ekki skilyrði verktöku
ECA gætir sameiginlegra hagsmuna atvinnuflugmanna á evrópskum vettvangi. Lagahópur samtakanna hittist reglulega og nú síðast þann 26.-27. september á Íslandi. Áhersla fundarins að þessu sinni var gerviverktaka meðal flugmanna með áherslu á íslenskt lagaumhverfi. „Ástæðan fyrir staðsetningu fundarins er aðgerðar- og áhugaleysi Vinnumálastofnunar, félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins, Samgöngustofu og annarra eftirlitsaðila hér á landi varðandi málefnið. Opinberum aðilum var boðið að taka þátt í fundinum en þáðu það ekki,“ segir Sonja.
„Íslenskir lögfræðingar með sérhæfingu í skatta- og vinnurétti fóru yfir lagaumhverfið hér á landi og það var samdóma álit hópsins að íslensk löggjöf næði vel utan um málið og heimildir og skyldur stjórnvalda væru bæði skýrar og nægar. Farið var yfir skilyrði fyrir verktöku og var það samdóma álit allra bæði af dómafordæmum og löggjöf að flugmenn geta í eðli sínu ekki starfað sem verktakar þar sem þeir uppfylla ekki skilyrði verktöku.“
Dulbúnir launþegasamningar við óskráðar starfsmannaleigur
Þá kom einnig skýrt fram að skrá beri starfsmannaleigur hjá Vinnumálastofnun sem veiti þjónustu til íslenskra fyrirtækja. Bláfugl starfar á grundvelli íslensks flugrekstrarleyfis og leigir flugmenn í gegnum erlendar starfsmannaleigur. „Þrátt fyrir að samningar við umrædda flugmenn séu titlaðir sem verktakasamingar eru þeir í raun launþega- samningar og verður því að horfa á þá sem slíka og skrá umrædda leigu sem starfsmannaleigu samkvæmt íslenskum lögum og greiða þeim laun samkvæmt kjarasamningum,“ segir Sonja og segir að ECA muni fylgjast grannt með framvindu mála hér á landi og ræða í framhaldinu næstu mögulegu skref.
Nýr framkvæmdastjóri FÍA
Hermann Sigurðsson tekur við starfi framkvæmdastjóra Félags íslenskra flugmanna (FÍA) af Láru Sif Christiansen sem hefur gegnt starfinu frá 2018. Hermann hóf störf 1. október og mun starfa við hlið Láru þar til hún lætur af störfum í lok desember.
Hermann starfaði sem framkvæmdastjóri Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna í 5 ár og bar hann ábyrgð á allri daglegri starfsemi þess og tengdum sjóðum, s.s. Styrktarsjóð, Starfsmenntunarsjóð, Orlofssjóð og Tryggingasjóð. Hann sat í samninganefndum og samstarfsnefndum og bar ábyrgð á viðburðum og útgáfumálum félagsins. Undanfarna mánuði hefur Hermann unnið sem verkefnastjóri og ráðgjafi í rekstri fyrirtækja.
Hermann starfaði sem framkvæmdastjóri Bandalags íslenskra skáta á árunum 2009 - 2017 og sat í stjórn fjögurra dótturfélaga og sá um að samhæfa aðgerðir á milli þeirra. Þar má nefna Skátamót ehf, Skátabúðin ehf, Grænir skátar ehf og var síðast formaður stjórnar Útilífsmiðstöðvar skáta á Úlfljótsvatni.
Hermann kláraði BS í viðskiptafræði frá Viðskiptaháskólanum á Bifröst 2004 og MCM nám í áfallastjórnun frá Háskólanum Bifröst 2023. Hermann er 42 ára Garðbæingur, er kvæntur Ósk Auðunsdóttur aðstoðarskólastjóra og á þrjú börn á aldrinum 6-11 ára. Hann hefur verið skáti frá barnsaldri og var virkur í björgunarsveitum um tíma. Hans helstu áhugamál er að ferðast innanlands og utan, stunda ýmis konar hreyfingu hvort það sé líkamsrækt, hjólreiðar eða badminton.
Stjórn FÍA þakkar Láru fyrir vel unnin störf í þágu félagsins, býður Hermann velkominn til starfa og hlakkar til samstarfsins.
