Ársfundur EFÍA 2021
Ársfundur Eftirlaunasjóðs FÍA verður haldinn fimmtudaginn 3. júní kl. 13:00 í Hlíðasmára 8 í Kópavogi.
Allir sjóðfélagar eiga rétt til setu á ársfundinum með umræðu og tillögurétti.
Frekari upplýsingar um fundinn má nálgast hér.
Nýr kjarasamningur við Mýflug samþykktur
Skrifað var undir nýjan kjarasamning Mýflugs við FÍA 28. apríl. s.l.
Í kjölfarið fór fram leynileg, rafræn atkvæðagreiðsla, þar sem flugmenn Mýflugs samþykktu nýjan kjarasamning með miklum meirihluta, eða um 73% greiddra atkvæða.
100% kosningaþáttaka var meðal flugmanna Mýflugs.
Fyrir samninganefnd FÍA fóru þeir Kjartan Jónsson og Ársæll Gunnlaugsson.
FÍA óskar flugmönnum Mýflugs til hamingju með nýjan kjarasamning.
Gildistími samningsins er frá 30. júní 2020 til 31. október 2025.

Landsréttur staðfestir lögmæti aðgerða FÍA
Verkfallsaðgerðir Félags íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) gegn Bláfugli ehf., sem hófust í febrúar 2021, voru úrskurðaðar lögmætar af Landsrétti nú fyrir helgi. Upphaflega hafði Bláfugl óskað eftir lögbanni á verkfallsaðgerðir FÍA en sýslumaður hafnaði því. Bláfugl skaut málinu til héraðsdóm sem staðfesti ákvörðun sýslumanns. Enn áfrýjaði Bláfugl málinu og staðfesti Landsréttur að ekki yrði lagt lögbann á lögmætar aðgerðir stéttarfélagsins.
Dómur Landsréttar staðfesti jafnframt enn og aftur þá meginreglu í íslenskum vinnumarkaðsrétti að þegar kjarasamningur rennur út eða honum er sagt upp fari réttindi og skyldur samningsaðila í meginatriðum áfram eftir eldri samningi meðan enn er ósamið og verkfall er ekki skollið á. Því hafi forgangsréttarákvæði félagsmanna FÍA ekki fallið úr gildi í lögskiptum þeirra við Bláfugl, en eins og flugmenn þekkja þá réði Bláfugl til sín 10 flugmenn sem gerviverktaka í byrjun nóvember og ráku samsvarandi fjölda félagsmanna FÍA í kjölfarið.
Að sama skapi gildir að löglegt verkfall, sem boðað er af stéttarfélagi, bindur alla launþega í viðkomandi starfsgrein og jafnframt þá sem standa utan stéttarfélagsins. Með öðrum orðum voru þeir flugmenn sem flugu fyrir Bláfugl í verkfallinu verkfallsbrjótar og aðgerðir FÍA til að verja verkfallið voru fullkomlega löglegar.
Þá taldi Landsréttur að Bláfugl yrði að bera hallan af því að upplýsa ekki um ráðningar- og starfskjör þeirra flugmanna sem hann kveður starfa í sína þágu sem „sjálfstætt starfandi verktakar“. Veitir það enn og aftur augljósar vísbendingar um að Bláfugl stundar gerviverktöku sem þeir reyna að halda fyrir utan dagsins ljós.
Landsréttur staðfesti úrskurði sýslumanns og síðar héraðsdóms og dæmdi Bláfugli ehf. jafnframt að greiða FÍA 440.000 krónur í kærumálskostnað.
Þess má einnig geta að aðalmeðferð í Félagsdómsmáli er varðar lögmæti uppsagna fór fram í apríl og er úrskurðar að vænta innan skamms.
Fréttabréf í apríl
Nýtt fréttabréf FÍA er komið út. Meðal efnis má finna greinar um breytingar á reglum um þjálfun flugmanna, öryggismál, EFÍA og sérhæfðar fjárfestingar, ITS á Íslandi, PSP samninga og bólusetning flugáhafna.
Smelltu hér til að lesa!
PS Enski hluti fréttabréfsins hefst á bls. 16!
Nýr kjarasamningur við Norlandair samþykktur
Skrifað var undir nýjan kjarasamning Norlandair við FÍA í Flugsafninu á Akureyri, þriðjudaginn 16. mars. Í kjölfarið fór fram leynileg, rafræn atkvæðagreiðsla, sem lauk mánudaginn 22.mars, þar sem allir flugmenn Norlandair samþykktu nýja samninginn.
,,Fyrir hönd samninganefndar FÍA þá óska ég flugmönnum Norlandair til hamingju með nýjan kjarasamning og fulltrúum félagsins þakka ég fyrir árangursríkt samstarf. Nýr kjarasamningur markar nýtt upphaf og ég vona að á grunni hans megi efla uppbyggingu Norlandair og markaðssókn félagsins," sagði Högni Björn Ómarsson, formaður samninganefndar FÍA við Norlandair. ,,Vonandi fáum við brátt fréttir af endurráðningum þeirra flugmanna sem þurftu að láta af störfum vegna samdráttar á síðasta ári. Lítum björtum augum fram á veginn og dveljum ekki um of við allt það erfiði sem nú er að baki. Niðurstöðunni ber að fagna."
FÍA óskar flugmönnum Norlandair til hamingju með nýjan kjarasamninginn.

Ánægt samningafólk við undirritun hins nýja kjarasamnings.
Frá vinstri: Jón Karl Ólafsson, Arnar Friðriksson, Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, Davíð Smári Jóhannsson, Halla Kristjánsdóttir og Högni B. Ómarsson. Á myndina vantar Örnólf Jónsson.
Myndband um Bláfugl og gerviverktöku
FÍA hefur útbúið stutt myndband um deilu félagsins við Bluebird Nordic (Bláfugl) sem félagið telur að beiti gerviverktöku og félagslegum undirboðum til að ná niður kostnaði.
Hægt er að sjá myndbandið á Facebook síðu FÍA eða á Youtube.
Mikilvægt dómafordæmi í Bretlandi
Í febrúar 2021 komst Hæstiréttur Bretlands að þeirri mikilvægu niðurstöðu að Uber bílstjórar ættu að vera flokkaðir sem launamenn og gætu ekki talist sjálfstæðir verktakar heldur yrðu að teljast starfsmenn fyrirtækisins Uber. Ætti það að leiða til þess að þeir fengju greidd lágmarkslaun samkvæmt breskum kjarasamningum auk þess að njóta þeirra réttinda sem þeim fylgja, s.s. veikindarétt og orlofsrétt (Sjá nánar um dóminn í frétt BBC hér).
Dómstóllinn taldi upp nokkra þætti í dæmaskyni sem leiddu til þess að bílstjórarnir gætu ekki talist verktakar, t.d. að Uber ákveður fargjaldið sem farþegar greiða og aðra samningsskilmála einhliða. Með tilliti til alls taldi Hæstirétturinn að bílstjórarnir væru undir boðvaldi Uber og að eina leið þeirra til að auka tekjur sínar væri að vinna lengri vaktir.
Að mati ECA (European Cockpit Association – Samtök evrópskra flugmanna) eiga sömu sjónarmið við varðandi flugmenn en báðir hóparnir hafa barist harðlega gegn gerviverktöku sem atvinnurekendur virðast reyna að nýta sér. Í grein frá ECA kemur fram að innlend vinnu- og flugmálayfirvöld eigi oft í erfiðleikum með að bera kennsl á „sjálfstætt starfandi starfsmenn“ eða gerviverktöku af þessu tagi. Hefur það afstöðuleysi eftirlitsyfirvalda einmitt leitt til þess að leiga á sjálfstætt starfandi flugmönnum hefur fengið að blómstra í friði þrátt fyrir að geta ekki talist annað en ólögmæt gerviverktaka.
Í greininni er kallað eftir því að yfirvöld taki almenna afstöðu til þess að flugmenn geti ekki talist sjálfstætt starfandi flugmenn í samræmi við það sem fram hefur komið í máli Uber bílstjóranna. FÍA tekur undir sjónarmið ECA og hvetur íslensk yfirvöld til að taka afstöðu í þessum efnum varðandi „sjálfstætt starfandi“ flugmenn á Íslandi.
Kjarasamningur flugmanna Flugfélags Íslands framlengdur
Kjarasamningur flugmanna Flugfélags Íslands framlengdur.
Þann 19. febrúar s.l. var skrifað undir endurnýjaðan kjarasamning FÍA og Samtaka
atvinnulífsins vegna Flugfélags Íslands.
Í kjölfarið hófst atkvæðagreiðsla um samninginn meðal flugmanna og var hann samþykktur með rúmlega 78% greiddra atkvæða.
Samningurinn gildir frá 1. september 2021 til 31. desember 2025.
Sigur FÍA í héraði
Verkfallsaðgerðir löglegar
- Héraðsdómur Reykjaness staðfesti í dag ákvörðun Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu um að verkfallsaðgerðir FÍA væru löglegar og að ekki yrði lagt lögbann á þær
- Dómurinn telur jafnframt kominn fram vafa um lögmæti uppsagna á flugmönnum FÍA
- Vísbendingar um að verktakaflugmenn séu í raun launþegar
- Kjarasamningur FÍA við Bláfugl gildir enn að efni ti.
Í dag féll úrskurður í héraðsdómi í máli Bláfugls ehf. gegn Félagi íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA), en Bláfugl hafði krafist þess að lögbann yrði lagt á verkfallsaðgerðir flugmanna félagsins sem starfa á kjarasamningi. Sýslumaður hafði áður synjað lögbannsbeiðni félagsins en Bláfugl ákvað að bera þá ákvörðun undir héraðsdóm.
Héraðsdómur staðfesti hins vegar ákvörðun Sýslumanns um lögmæti verkfallsaðgerðanna og tók fram að ekkert hafi komið annað fram en að til verkfalls hafi verið boðað með lögmætum hætti. Má af því leiða að FÍA hafði fullan rétt á því að standa vörð um boðað verkfall og gæta þess að ekki sé gengið í störf þeirra sem eru í verkfalli.
Vafi á lögmæti uppsagna
Niðurstaða héraðsdóms rennir styrkum stoðum undir rök FÍA í baráttu sinni gegn ólögmætum félagslegum undirboðum og gervirktöku Bláfugls en í síðustu viku höfðaði FÍA mál fyrir Félagsdómi varðandi ólögmætar uppsagnir flugmanna Bláfugls sem starfa á kjarasamningi.
Í úrskurðinum kemur skýrt fram að dómurinn telji kominn fram vafa um lögmæti uppsagna Bláfugls á flugmönnum félagsins sem starfa á kjarasamningi. Þannig segir í niðurstöðu dómsins að meðan á kjaraviðræðum deiluaðila stóð hafi Bláfugl ráðið til sín átta nýja flugstjóra og tvo flugmenn á verktakakjörum og rúmum mánuði síðar sagt upp átta fastráðunum flugstjórum og tveimur flugmönnum innan vébanda stéttarfélagsins. Í úrskurði segir m.a. að „Með hliðsjón af grein 01-3 fyrri kjarasamnings, sem gildir enn að efni til og kveður á um að ráðning eða leiga flugmanna til sóknaraðila skuli ekki hafa á neinn máta hafa áhrif á framgang fastráðinna flugmanna, sem eru félagsmenn varnaraðila, eða leiða til uppsagna þeirra telur dómurinn fram kominn vafa um lögmæti nefndra uppsagna.“ Að mati FÍA virðist ljóst að Bláfugl hafi ráðið inn gerviverktaka í þeim eina tilgangi að segja upp flugmönnum sem starfa á kjarasamningi og eru í stéttarfélagi.
Af dóminum má einnig leiða að vísbendingar séu um að flugmenn félagsins sem ráðnir eru inn sem verktakar séu í raun launþegar, og þar með gerviverktakar, en ekki var hægt að taka afstöðu til þess í dóminum þar sem Bláfugl lagði ekki fram gögn sem sýndu fram á að um verktaka væri að ræða.
Dómurinn taldi að Bláfugl hafi hvorki sannað né gert sennilegt að verkfallsaðgerðir FÍA hafi eða muni brjóta gegn lögvörðum rétti hans. Einnig kvað úrskurðurinn á um að Bláfugl myndi greiða málskostnað, sem metið var á kr. 620.000.
Stjórn FÍA 2021-2022
Ný stjórn tók við embætti að loknum aðalfundi FÍA þann 18. febrúar, 2021. Rafrænar kosningar fóru ekki fram í ár þar sem sjálfkjörið var í stjórnina.
Formaður
Jón Þór Þorvaldsson, ICE (2022)
Varaformaður
Guðmundur Már Þorvarðarson, ICE (2023)
Meðstjórnendur
Högni Björn Ómarsson, ICE (2022)
Steindór Ingi Hall, ICE (2022)
Sara Hlín Sigurðarsdóttir, ICE (2022)
Hólmar Logi Sigmundsson, LHG (2023)
Gunnar Björn Bjarnason, AIC (2022)
Haraldur Helgi Óskarsson, AAI (2023)
G. Birnir Ásgeirsson, AAI (2023)
SA og Bláfugli stefnt fyrir ólögmætar uppsagnir
Nú hefur Félag íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) tekið næsta skref í baráttunni gegn félagslegum undirboðum og gerviverktöku með því að höfða mál fyrir Félagsdómi varðandi ólögmætar uppsagnir flugmanna Bláfugls sem starfa á kjarasamningi við FÍA. Málið er einnig til skoðunar hjá Vinnumálastofnun auk þess sem ábending hefur verið send til skattayfirvalda vegna gerviverktöku.
Niðurstaða Félagsdóms mun skapa mikilvægt fordæmi fyrir því hvort heimilt sé að segja upp launafólki sem starfar eftir kjarasamningi og ráða inn gerviverktaka í staðinn á meira en helmingi lægri launum. Einnig hvort heimilt sé að ráða inn gerviverktaka til að ganga inn í störf þeirra sem eru í löglega boðuðu verkfalli.
Undir lok síðasta árs var öllum flugmönnum Bláfugls sem eru í stéttarfélagi sagt upp störfum, í miðjum kjaraviðræðum, og í framhaldi af því tilkynnti flugfélagið um að framvegis muni það einungis ráða „sjálfstætt starfandi flugmenn“, með öðrum orðum gerviverktaka. Flugmaður sem starfar fyrir flugrekanda getur í eðli sínu ekki starfað sem verktaki þar sem hann uppfyllir ekki skilyrði um verktöku.
Mál Bláfugls, með fulltingi Samtaka atvinnulífsins, hefur vakið mikinn ugg víða og hafa bæði danskir og norskir fjölmiðlar fjallað um málið.
FÍA segir stöðuna grafalvarlega enda gróflega vegið að lögum og reglum íslensks vinnumarkaðar af hálfu Bláfugls og SA, sem fer með samningsumboðið fyrir hönd Bláfugls.
Sé þetta látið óátalið af yfirvöldum má af því leiða að heimilt sé að segja upp launafólki landsins sem starfa á grundvelli kjarasamninga og ráða inn gerviverktaka í þeirra stað til að lækka laun verulega og svipta launafólk áunnum réttindum á borð við veikindarétt og orlof.