Fréttir

24. sep 2020

Ákall frá starfsfólki í flugrekstri

Á þeim tímapunkti, þegar hálft ár er liðið frá því að COVID heimsfaraldurinn hófst, vill starfsfólk í flugrekstri – flugmenn, flugfreyjur- og þjónar, flugvirkjar og flugumferðastjórar - senda samgönguráðherrum Evrópu mikilvæg skilaboð fyrir sameiginlegan fund þeirra þann 28. september næstkomandi.

Þegar Evrópuríki lokuðu landamærum sínum stöðvaðist nær allt farþegaflug, þótt vöruflutningar með lækningabúnað og aðrar nauðsynjar hafi haldið áfram. Þessir erfiðu mánuðir aðgerðarleysis minntu okkur á tilgang flugrekstursins; að tengja saman fólk og menningarheima, flytja vörur, halda hagkerfum gangandi og þjóna almannahagsmunum.

Ástandið hefur einnig afhjúpað stóra kerfisbundna bresti í flugrekstri. Bresti sem hafa myndast vegna áralangs niðurskurðar og stjórnenda sem hafa verið í sífelldu kapphlaupi að botninum. Ef ekkert verður að gert nú í kjölfar kórónuveirufaraldursins varðandi þessa bresti mun fólkið sem starfar við flugrekstur í Evrópu eiga erfitt með að sinna sínu meginhlutverki: Að þjóna almannahagsmunum.

Að snúa aftur til óbreytts ástands eftir COVID er ekki valkostur.

Sjá sameiginlega ákallið í heild sinni hér: COVID-19 & AVIATION - Time to rethink!

Lesa meira
25. maí 2020

EHÍ og starfsmenntasjóður

Fjölmörg námskeið eru í boði í sumar hjá Endurmenntun HÍ en þau eru hluti af tímabundnu átaki stjórnvalda til að skapa náms- og atvinnutækifæri fyrir einstaklinga og eru niðurgreidd af menntamálaráðuneytinu.

Á námskrá eru þónokkur námskeið sem gætu höfðað vel til flugmanna en þess má geta að meðlimir FÍA geta sótt um 85% endurgreiðslu vegna náms frá starfsmenntasjóði.

Lesa meira
11. maí 2020

Fréttabréf í maí 2020

Fréttabréf maímánuðar er komið út en þar kennir ýmissa grasa.
Meðal annars má þar finna greiningu á CASK kostnaði hjá Icelandair samanborinn við önnur flugfélög. Einnig eru þar áhugaverðir pistlar um stöðu mála í flugiðnaði,Kínaferðir, öryggismál, alþjóðamál og stuðning á erfiðum tímum.

Lesa meira
28. apr 2020

Tilkynning vegna uppsagna

Í dag bárust slæmar fréttir frá Icelandair Group með uppsögnum á rúmlega 2000 starfsmönnum en þar af var 421 flugmaður. Einnig bárust þær fregnir að 13 flugmönnum verði sagt upp hjá Air Iceland Connect um næstu mánaðarmót. Áður höfðu enn fleiri flugmenn látið af störfum en tæplega 600 flugmenn störfuðu hjá Icelandair þegar mest var. Þá er enn ótalinn sá hópur sem hafði þegar misst flugstjórarstöðu sína og verið færður í sæti flugmanns.

Verkefni Félags íslenskra atvinnuflugmanna er nú að styðja við flugmenn eftir bestu getu og aðstoða þá í þeirri erfiðu stöðu sem þeir kljást nú við.

Flugiðnaðurinn er slagæð í efnahag og hagkerfi þjóðarinnar, iðnaður sem heldur uppi um 72.000 störfum á Íslandi, beint eða óbeint. Ferðaiðnaður, sjávarútvegur og ótal fleiri atvinnugreinar reiða sig á greiðar og reglulegar flugsamgöngur.

Sú mikla umferð sem fer um Keflavíkurflugvöll árlega er afrakstur áratuga vinnu Icelandair til að festa Ísland í sessi sem tengil eða miðpunkt milli heimsálfa (e. hub and spoke system).

Sú mikilvæga staða er nú í hættu ef ekki verður gripið inn í með myndarlegum hætti.

Flugmenn Icelandair hafa staðið með fyrirtækinu í gegnum súrt og sætt og munu halda því áfram. Við hvetjum íslensk stjórnvöld til að gera slíkt hið sama, grípa inn í og tryggja áframhaldandi grundvöll reglulegra flugsamgangna milli Íslands og umheimsins. Icelandair þarf jafnframt að vera tilbúið til að rísa hratt upp þegar aðstæður gefa efni til.

Við viljum leggja áherslu á að þetta er tímabundið ástand og þrátt fyrir höggin sem dynja á okkur flugmönnum og öðrum stéttum, þá munum við standa þetta af okkur.

Sé frekari upplýsinga óskað er velkomið að leita til skrifstofu FÍA.

Lesa meira
18. apr 2020

Rangfærslur um launamál flugmanna

Nýlegar fréttir í fjölmiðlum af launum flugmanna Icelandair eiga sér litla stoð í raunveruleikanum. Félag íslenskra atvinnuflugmanna vill, að gefnu tilefni, koma eftirfarandi staðreyndum á framfæri.

Laun flugmanna eru markaðslaun

Það er misvísandi að ýja að því að launakostnaður flugmanna Icelandair sé stór þáttur í rekstrarvanda flugfélagsins eða að hann sé yfir höfuð hærri en gerist á hinum alþjóðlega markaði sem félagið starfar á. Laun flugmanna Icelandair eru fyllilega sambærileg launum hjá öðrum flugfélögum, austan hafs og vestan.

Vegna rangra staðhæfinga í fjölmiðlum er einnig rétt að taka fram að það er rangt að flugmenn WOW air hafi verið með mun lægri laun en flugmenn Icelandair – launin voru sambærileg.

Flugmenn vilja fljúga meira

Nýting flugmanna gæti verið betri hjá Icelandair, en hluta vandans má að stærstu leiti rekja til kyrrsetningar B 737 Max flugvéla félagsins. Breytingar á leiðarkerfi höfðu einnig neikvæð áhrif á nýtingu ásamt innra skipulagi og einstökum ákvörðunum stjórnenda. Kjarasamningar flugmanna Icelandair koma ekki í veg fyrir nýtingu starfskrafta þeirra til jafns við það sem best gerist erlendis.

Flugmenn hafa sjálfir haft frumkvæði að því að bæta nýtingu og hafa sem dæmi í öllum kjaraviðræðum frá árinu 2011 lagt fram fullmótaðar tillögur þess efnis bæði fyrir leiguflug erlendis og áætlunarflug í leiðarkerfi Icelandair. Vert er að geta þeirra breytinga sem gerðar voru á kjarasamningi árið 2018 til að auka nýtingu flugmanna og efla markaðssókn félagsins til muna. Vegna kyrrsetningar B737 Max véla Icelandair á sú hagræðing enn eftir að skila sér að fullu þegar betur árar.

Stuðningur við félagið

Flugmenn Icelandair eiga nú sem fyrr mikið undir framtíð fyrirtækisins og munu leggjast af fullum þunga á árarnar til að létta fyrirtækinu róðurinn. Flugmenn hafa þegar sýnt viljann í verki með því að fresta umsömdum launahækkunum á síðasta ári, framlengja kjarasamning án launahækkana auk þess sem að þeir flugmenn sem hafa ekki sætt uppsögn tóku á sig 50% launaskerðingu í apríl og maí. Þá er ótalinn fjöldi undanþága frá ákvæðum kjarasamnings og reglugerða vegna Covid-19 ástandsins og fleiri tilfallandi þátta.

Nú þegar hefur 23% flugmanna Icelandair verið sagt upp störfum og fleiri uppsagnir hafa því miður verið boðaðar. FÍA hefur ekki upplýsingar um hvert endanlegt umfang þeirra uppsagna kann að verða.

Það er bæði ósanngjarnt og villandi að velta ábyrgðinni á framtíð flugfélagsins að mestu yfir á starfsfólk þess. Rekstrarvandi Icelandair er flókið samspil ytri og innri þátta og flugmenn ætla að taka þátt í að leysa úr þeim vanda með fyrirtækinu á næstu mánuðum.

Lesa meira
23. mar 2020

Tilkynning frá FÍA um stöðu Icelandair flugmanna

Sú samstaða sem hefur verið aðalsmerki flugmanna er öflugasta vopnið gegn þeirri sameiginlegu ógn sem við stöndum nú frammi fyrir. Við þurfum öll að bregðast við aðstæðum sem ógna ekki bara efnahag ríkja, fyrirtækja og einstaklinga, heldur því sem er mikilvægast - heilsu og lífi fólks. Á slíkum stundum liggur hugur fólks hjá fjölskyldu og ástvinum þótt óvissan um afkomu og atvinnuöryggi geti vissulega aukið streitu og álag.

Staðan hjá Icelandair
Icelandair, líkt og önnur flugfélög í heiminum, stendur nú frammi fyrir skyndilegum tekjumissi og óvissan sem því fylgir er mikil. Félagið gegnir gríðarlega mikilvægu hlutverki, ekki bara gagnvart starfsfólkinu sínu heldur einnig í íslensku samfélagi og efnahagslífi. Styrkur félagsins felst í samsetningu flugflota, sterkri eiginfjárstöðu og öllu því fjölhæfa og öfluga starfsfólki sem með dugnaði sínum og elju hefur áður brotist í gegnum ýmsa erfiðleika. Það munum við einnig gera núna.

Ljóst er að félagið þarf að bregðast hratt við þeim aðstæðum sem nú eru komnar upp. Fulltrúar Icelandair kynntu í síðustu viku hugmyndir er varða almennar aðgerðir félagsins til að bregðast við samdrætti. Í því skyni að draga sem fyrst úr launakostnaði verða flestir starfsmenn færðir niður í lægra starfshlutfall. Stór hluti þessa fólks mun þrátt fyrir það halda áþekkum ráðstöfunartekjum þar sem greiðslur úr Atvinnutryggingasjóði munu bætast við launin frá Icelandair. Það úrræði yfirvalda er gert með þeim formerkjum að ráðningarsamband haldist.

Staða flugmanna Icelandair
Flugmenn Icelandair munu nú leggja lóð sín á vogarskálarnar rétt eins og aðrir starfsmenn, enda eiga þeir allt undir velgengni fyrirtækisins. Algengt er að flugmenn séu ráðnir á þrítugsaldri og starfi svo af tryggð og trúmennsku hjá Icelandair til starfsloka. Það er einstakt langtímasamband og um leið vitnisburður um gæði okkar starfa.

Nú þegar hefur tæpur fjórðungur flugmanna misst vinnuna, enda hafði kyrrsetning B-737 MAX véla félagsins mikil áhrif reksturinn áður en útbreiðsla Covid-19 veirunnar bætti gráu ofan á svart. Flugmenn brugðust við, þá eins og nú, og frestuðu umsömdum launahækkunum og framlengdu kjarasamning án hækkana til að styðja við félagið. Þau úrræði sem nýtast flestum starfsmönnum Icelandair gagnast okkar fólki hins vegar ekki eins vel. Kjarasamningur okkar er ólíkur því sem tíðkast hjá öðrum hópum og því var mikilvægt að finna flöt á því með hvaða hætti mætti heimfæra þessa aðgerð yfir á flugmenn, að teknu tilliti til kjarasamnings.

Launalaust leyfi í stað 50% starfs
Upphaflega var gerð krafa um að flugmenn Icelandair færu allir í 50% starf, á sömu forsendum og aðrir starfsmenn félagsins. Eftir að ljóst var að það samræmdist ekki starfsaldursreglum þurfti að leita annarra leiða. FÍA kom til móts við kröfu félagsins um að launakostnaður yrði lækkaður sem allra fyrst með tillögu um launalaust leyfi. Aðgerðin gengur út á það að flugmenn vinni aðeins helminginn af tímabilinu frá 1. apríl – 31. maí. Þannig nær félagið strax fram þeim sparnaði sem lagt var upp með án þess að breyta þurfi kjarasamningi sem er kostur.

Lög FÍA kveða á um leynilega rafræna atkvæðagreiðslu sem þegar er hafin. Verði þessi tímabundna ráðstöfun samþykkt er Icelandair heimilt að setja flugmenn í launalaus leyfi á ofangreindu tímabili.

Það er von mín og trú að flugmenn sýni þessum fordæmalausu aðstæðum skilning og taki sem fyrr þátt í þvi að koma Icelandair í gegnum erfiða tíma. Samstaðan er okkar aðalsmerki og nú vona ég að við sýnum hana öll í verki.

Þótt áherslan undanfarna daga hafi verið á málefni Icelandair flugmanna vil ég taka fram að við höfum einnig verið að vinna að málefnum annarra hópa innan stéttarfélagsins og munum við vera í sambandi við ykkur félagsmenn eftir því sem málefni þróast.

Með kveðju,

Jón Þór Þorvaldsson,

Formaður FÍA

Lesa meira