Ályktun Félags íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) vegna ákvörðunar dómsmálaráðherra um að selja flugvél Landhelgisgæslu Íslands, TF-SIF sem er sérútbúin til leitar og björgunar
Þann 1. febrúar sl. bárust fréttir af ákvörðun dómsmálaráðherra um að hætta rekstri sérútbúinnar flugvélar Landhelgisgæslu Íslands (LHG) TF-SIF. Ákvörðuninni fylgir sú niðurstaða að undirbúa eigi söluferli flugvélarinnar og að tafarlaust skuli segja upp flugmönnum vélarinnar.
Ákvörðun ráðherra er að mati FÍA óforsvaranleg og ólögleg af mörgum ástæðum. Ákvörðunin er einnig óverjanleg með tilliti til alþjóðlegra skuldbindinga og samstarfs íslenska ríkisins við önnur ríki og stenst ekki skoðun að þjóðarrétti. Ákvörðunin vegur að þjóðaröryggisstefnu lýðveldisins Íslands og ljóst að ekki hefur verið haft samráð við Alþingi. Í ljósi þess má vænta að ráðherra hafi heldur ekki upplýst þjóðaröryggisráð um áform sín áður en hann réðist til verka og þannig brugðist skyldum sínum samkvæmt lögum um þjóðaröryggisráð.
Hvergi kemur fram hvernig ráðherra ætli að uppfylla skyldur ríkisins varðandi öryggisgæslu og björgun á hafi úti í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands, samninga við önnur ríki og ákvæði íslenskra laga. Landhelgisgæslan getur ekki uppfyllt skyldur sínar samkvæmt lögum um Landhelgisgæsluna og alþjóðlegum skuldbindingum án sérútbúinnar flugvélar enda erum við eyþjóð með leitar- og björgunarsvæði sem telur 1,9 milljónir ferkílómetra og u.þ.b. 700 sjómílur eru frá Reykjavíkurflugvelli í NA & SV hornin sem marka ytri mörk svæðisins sitthvoru megin. Ísland ber ábyrgð á öryggisgæslu og löggæslu, leit og björgun á þessu svæði. Það að hafa ekki tiltæka sérútbúna flugvél líkt og TF-SIF til leitar á svona stóru svæði, þar sem umferð bæði flugvéla og skipa er mikil, og heldur áfram að aukast t.d. með aukinni umferð bæði skemmtiferðaskipta og fraktflutningaskipa, er með öllu óásættanlegt og vegur augljóslega gegn þjóðaröryggi og alþjóðlegum skuldbindingum íslenska ríkisins.
Hvorki í lögum um Landhelgisgæsluna né í lögum um loftferðir er að finna heimildir til að framselja skyldur stofnunarinnar um öryggisgæslu og löggæslu á hafinu í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands, samninga við önnur ríki og ákvæði laga.
Ástæður ráðherra fyrir þeirri ákvörðun sinni að selja flugvél Landhelgisgæslunnar virðast fyrst og fremst vera hagræðingar í fjármálum ríkisins en eins og komið hefur fram hjá stjórnarandstöðunni á þingi liggur ekki fyrir heimild fyrir sölu TF-SIF í nýsamþykktum fjárlögum. Þá hafa ekki verið lagðir fram útreikningar frá ráðherra sem sýna fram á í hverju hagræðingin felst og hvort hægt sé að ná fram hagstæðari rekstri flugvélar á vegum Landhelgisgæslunnar. Varðandi dýran rekstur flugvélarinnar er ljóst að engin löggæsla er rekin með hagnaði og ástæða þess að flugvélin hefur verið leigð suður um höf er að ekki hefur fengist fjármagn í fjárlögum til að hafa flugvélina alla mánuði ársins á landinu þrátt fyrir skyldur ríkisins til að hafa hana tiltæka.
Varðandi heimildarleysi til sölunnar bendir FÍA á að samkvæmt stjórnarskrá má ekki greiða gjald og selja eignir úr ríkissjóði nema heimild til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum. Komið hefur í ljós að engin heimild var í lögum fyrir sölu TF SIF og engin umræða hefur farið fram á Alþingi varðandi söluna. Er af því ljóst að ráðherra hefur ekki heimild til að taka þessa ákvörðun einn og án heimildar frá Alþingi. Uppsagnir flugmanna vélarinnar án slíkrar heimildir er ekki hægt að túlka öðruvísi en grimma atlögu að þeim starfsmönnum Landhelgisgæslunnar. Uppsagnir á störfum þessara flugmanna fela jafnframt í sér brot á kjarasamningi FÍA við Landhelgisgæsluna og starfsaldursreglum sem eru hluti af þeim kjarasamningi. Mun FÍA að sjálfsögðu standa vörð um störf þeirra og leita atbeina Félagsdóms gerist þess þörf.