None
19. apr 2022

Ályktun frá flugmönnum Landhelgisgæslunnar

Kjarasamningar flugmanna Landhelgisgæslunnar hafa verið lausir frá 31. desember 2019 og hafa samningaviðræður gengið hægt og illa. Allan þann tíma höfum við lagt allt okkar undir til að halda uppi háu þjónustustigi þrátt fyrir undirmönnun og engan samningsvilja af hálfu ríkisins.

Sem handhafar lögregluvalds hafa flugmenn ekki verkfallsrétt. Því hafa kjarasamningar þeirra verið tengdir kjarasamningum sambærilegra starfsstétta, lengst af með lögbundinni tengingu, eða til 2006.

Fjármálaráðuneytið ræðst nú af kappi gegn þessu fyrirkomulagi, með skýrri kröfu um nýjan, frumsaminn kjarasamning án tengingar við sambærilegar starfsstéttir. Slíkt mun ekki bara hafa áhrif á kjör flugmanna heldur er það til þess fallið að stórauka starfsmannaveltu meðal flugmanna Landhelgisgæslunnar.

Að viðhalda stöðlum um leit og björgun í öllu veðri er kostnaðarsamt og ver Landhelgisgæslan hundruðum milljóna króna í þjálfun á hverjum flugmanni. Aukin starfsmannavelta er því fljót að vega upp aftengingu kjara við sambærilegar stéttir og gott betur.

Fjármálaráðuneytið vegur einnig hressilega að flugöryggi með kröfu um að afnema starfsaldurslista flugmanna sem er ein af grunnstoðum í öryggismenningu í flugi um allan heim. Það fyrirkomulag hefur reynst farsælt, enda tryggja slíkir listar gagnsæi, faglegan framgang í starfi og að flugmenn geti tilkynnt um atvik án ótta við refsingu. Engin málefnaleg rök fást frá ráðuneytinu sem styðja afstöðu þess og raunar hefur samninganefnd flugmannanna skynjað skort á fagþekkingu og skilning á sérstöðu starfs-greinarinnar í samningaviðræðum.

Fjármálaráðuneytið ræðst á verkfallsréttalausa starfsstétt og því erum við í nánast vonlausri stöðu.

Við stöndum frammi fyrir kjarasetningu fremur en kjarasamningi.

Enn alvarlega er að flugöryggi Landhelgisgæslunnar er stefnt í hættu með grafalvarlegum afleiðingum fyrir fólk sem þarf nauðsynlega á þeirri þjónustu að halda. Ríkissjóður má búast við hundruða milljóna aukakostnaði vegna stóraukinnar starfsmannaveltu flugmanna og tilheyrandi tapi á reynslu og þekkingu.

Við, flugmenn Landhelgisgæslu Íslands, lýsum hér með yfir miklum áhyggjum af framtíðarrekstri björgunarloftfara landsmanna allra, bæði til sjávar og sveita.

Við krefjumst sanngjarnrar og málefnalegrar kjarasamningagerðar.

Virðingarfyllst,

Flugmenn Landhelgisgæslu Íslands