None
24. apr 2019

Auglýst eftir framboðum í stjórn EFÍA

Kjörnefnd Eftirlaunasjóðs FÍA (EFÍA) auglýsir nú eftir framboðum til stjórnarsetu í EFÍA kjörtímabilið 2019-2021.

Í kjölfar aukaársfundar EFÍA í febrúar síðastliðnum voru samþykktar breytingar á fyrirkomulagi í tengslum við skipan í stjórn EFÍA, meðal annars að fulltrúar FÍA í stjórn EFÍA verði kosnir af sjóðfélögum í beinni kosningu.

Samkvæmt greinum 4.1 og 4.1 a í samþykktum sjóðsins skulu sjóðfélagar kjósa tvo aðalmenn og einn varamann til stjórnarsetu í tvö ár. Þeir sem gefa kost á sér þurfa að uppfylla eftirfarandi:

  • Vera sjóðfélagar í EFÍA.
  • Vera fjárhagslega sjálfstæðir og búa yfir nægilegri þekkingu og starfsreynslu skv. 31. gr. laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, og 6. gr. reglna FME nr. 180/2013 og fullnægja að öðru leyti þeim kröfum sem gerðar eru um hæfi og hæfni stjórnarmanna skv. framangreindum lögum, reglum FME og samþykktum sjóðsins.
  • Vera tilbúnir til að gangast undir hæfismat FME.
  • Skila inn framboðsgögnum innan tilskilins tímafrests.

Áhugasamir geta gefið kost á sér með því að senda inn framboð og fylgigögn á netfang kjörnefndar, kjornefnd@efia.is. Sjá nánar um fylgigögn og aðrar upplýsingar á heimasíðu EFÍA hér

Frestur til að skila inn framboði er 7. maí 2019 kl. 17:00.


Hlutverk kjörnefndar

Í samræmi við grein 4.2 í samþykktum sjóðsins hefur stjórn EFÍA skipað kjörnefnd vegna fyrirhugaðs stjórnarkjörs á ársfundi sjóðsins 2019, en hana skipa Jónas Fr. Jónsson, Lára Sif Christiansen og Magnús Brimar Jóhannsson.

Markmiðið með störfum kjörnefndar er að tryggja sjóðfélögum EFÍA áreiðanlegri forsendur til að taka upplýsta ákvörðun um val í stjórn sjóðsins. Meðal hlutverka kjörnefndar er að hafa umsjón með framkvæmd stjórnarkjörs og leggja fram rökstutt mat á hæfi einstakra frambjóðenda til stjórnarsetu, mat nefndarinnar telst vera ráðgefandi.

Kjörnefnd mun auglýsa eftir og yfirfara framboð með tilliti til þeirrar hæfni og reynslu sem nauðsynleg er til stjórnarsetu í lífeyrissjóði sem og að teknu tilliti til samsetningar stjórnar og hvað varðar breidd í fjölbreytni, hæfni og reynslu.