None
01. nóv 2012

Blekkingarleikur gerviflugfélaga

Nú fer hátt umræða um hvað er flugrekstraraðili og hvað ekki. Flugmálastjórn Íslands hefur nú loks sent frá sér yfirlýsingu að ekki sé rétt að kalla félög eins og Wow Air flugrekstraraðila enda eru þeir ekki með flugrekstrarleyfi og bera hvorki skyldur né kostnað sem því fylgir.
Skúli Mogensen kemur þá í fjölmiðla og heldur því blákalt fram að þeir séu íslenskt flugfélag og kórónar svo allt með fréttatilkynningu að Wow Air hafi tekið á móti nýrri flugvél, heldur er nú talið ólíklegt að farmiðasala, sem kaupir sína þjónstu af Lettneska flugfélaginu Avion Express, sé að taka á móti flugvélinni til að reka hana, það hlýtur að falla í hlut flugfélagsins en ekki farmiðasölunnar. Allt er þetta gert til þess eins að blekkja neytendur sem ekki átta sig endilega á því að ef eitthvað alvarlegt kemur uppá sem farmiðasalan er ekki tilbúin að bera ábyrgð á þá er eini rétturinn sem farþegar hafa gagnvart flugfélagi í Lettlandi, hvernig ætli gangi að sækja rétt sinn þangað austur?

Norsk yfirvöld hafa bannað gerviflugfélögum að nota orðið flugfélag en íslensk yfirvöld hafa ekki verið tilbúin að stíga það skref þar sem einungis orðið "Flugrekandi" kemur fram í íslenskri löggjöf, ekki orðið "flugfélag". Íslensk flugfélög sem fara eftir settum leikreglum og þurfa að uppfylla skilyrði eins og t.d. að hafa handbært fé til a.m.k. 3ja mánaða reksturs án innkomu, með þeim kostnaði sem því fylgir, standa því berskjölduð fyrir innkomu þessara gerviflugfélaga þangað til stjórnvöld jafna leikreglurnar. Leikreglur í þágu öryggis og viðurværis íslenskra starfsmanna!

Félag Íslenskra atvinnuflugmanna, FÍA, fordæmir þessi vinnubrögð og lýsir því jafnframt yfir að flugmenn fagna samkeppni á flugmarkaði, svo lengi sem slík samkeppni er á jafnréttisgrundvelli. Það er sorglegt þegar fyrirtæki reyna að bjóða betra verð með því að vera með starfsfólk sem verktaka og brjóta þannig niður réttindi starfsfólks.

Þau íslensku flugfélög sem eru með íslenskan kjarasamning við FÍA og íslenskt flugrekstrarleyfi og skila þar með sköttum og skyldum til íslensks samfélags eru:
• Air Atlanta
• Bláfugl
• Flugfélag Íslands
• Ernir
• Icelandair
• Landhelgisgæslan
• Mýflug
• Norlandair
• Þyrluþjónustan

auk flugskólanna:
• Flugskóli Akureyrar
• Flugskóli Íslands
• Geirfugl
• Keilir flugakademía