None
04. okt 2023

ECA gagnrýnir íslensk stjórnvöld

Samtök atvinnuflugmanna í Evrópu (European Cockpit Association eða ECA) hafa gefið frá sér ályktun þar sem vinnubrögð íslenskra stjórnvald er varðar gerviverktöku í flugi eru gagnrýnd harðlega. Ályktunin var send á bæði Vinnumálastofnun og félags – og vinnumarkaðsráðuneytið.

Kveikjan er uppsögn flugmanna Bláfugls (Bluebird Nordic) í lok árs 2020 og ráðning gerviverktaka í þeirra stað. Uppsagnirnar voru í kjölfarið dæmdar ólögmætar af Félagsdómi en þrátt fyrir það hefur Bláfugl í engu breytt atferli sínu né heldur hafa íslensk stjórnvöld brugðist við ítrekuðum umleitunum FÍA um að bregðast við áframhaldandi lögbrotum Bláfugls.

„Atferli Bláfugls, með dyggum stuðningi Samtaka atvinnulífsins og íslenskra stjórnvalda, setur vitaskuld skelfilegt fordæmi fyrir íslenskan vinnumarkað: Fyrirtæki geta nú refsilaust rekið allt kjarasamningsbundið starfsfólk á einu bretti og ráðið gerviverktaka í staðinn,“ segir Sonja Bjarnadóttir Backman, lögfræðingur FÍA, og bætir við að um þessar mundir sé skaðabótmál fyrrum flugmanna Bláfugls fyrir dómstólum.

Flugmenn uppfylla ekki skilyrði verktöku

ECA gætir sameiginlegra hagsmuna atvinnuflugmanna á evrópskum vettvangi. Lagahópur samtakanna hittist reglulega og nú síðast þann 26.-27. september á Íslandi. Áhersla fundarins að þessu sinni var gerviverktaka meðal flugmanna með áherslu á íslenskt lagaumhverfi. „Ástæðan fyrir staðsetningu fundarins er aðgerðar- og áhugaleysi Vinnumálastofnunar, félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins, Samgöngustofu og annarra eftirlitsaðila hér á landi varðandi málefnið. Opinberum aðilum var boðið að taka þátt í fundinum en þáðu það ekki,“ segir Sonja.

„Íslenskir lögfræðingar með sérhæfingu í skatta- og vinnurétti fóru yfir lagaumhverfið hér á landi og það var samdóma álit hópsins að íslensk löggjöf næði vel utan um málið og heimildir og skyldur stjórnvalda væru bæði skýrar og nægar. Farið var yfir skilyrði fyrir verktöku og var það samdóma álit allra bæði af dómafordæmum og löggjöf að flugmenn geta í eðli sínu ekki starfað sem verktakar þar sem þeir uppfylla ekki skilyrði verktöku.“

Dulbúnir launþegasamningar við óskráðar starfsmannaleigur

Þá kom einnig skýrt fram að skrá beri starfsmannaleigur hjá Vinnumálastofnun sem veiti þjónustu til íslenskra fyrirtækja. Bláfugl starfar á grundvelli íslensks flugrekstrarleyfis og leigir flugmenn í gegnum erlendar starfsmannaleigur. „Þrátt fyrir að samningar við umrædda flugmenn séu titlaðir sem verktakasamingar eru þeir í raun launþega- samningar og verður því að horfa á þá sem slíka og skrá umrædda leigu sem starfsmannaleigu samkvæmt íslenskum lögum og greiða þeim laun samkvæmt kjarasamningum,“ segir Sonja og segir að ECA muni fylgjast grannt með framvindu mála hér á landi og ræða í framhaldinu næstu mögulegu skref.