None
03. mar 2014

Félagsmenn FÍA álykta vegna aðfarar ríkislögreglustjóra að starfsöryggi flugmanna

Ályktun aðalfundar Félags íslenskra atvinnuflugmanna 2014

Aðalfundur FÍA haldinn að Grand Hótel Reykjavík 27.02.2014 átelur harðlega aðför ríkislögreglustjóra að starfsöryggi og afkomu félagsmanna með óvönduðum og ólögmætum vinnubrögðum við bakgrunnsathuganir á félagsmönnum. Einnig gagnrýnir fundurinn lagafrumvarp innanríkisráðherra um stórauknar valdheimildir til ríkislögreglustjóra þar sem persónuverndarsjónarmið eru að engu höfð og gengur í berhögg við nýlegan úrskurð persónuverndar um bakgrunnskoðanir. Skv. frumvarpinu mun Ísland ganga mun lengra en önnur Evrópuríki í persónurannsóknum við framkvæmd bakgrunnsathugana. Undrast fundurinn hvað innanríkisráðherra gangi til. Skorar fundurinn á þingmenn að beita sér gegn því að hinar boðuðu breytingar verði samþykktar sem lög frá Alþingi.