None
06. apr 2022

FÍA fordæmir viðskipti ríkisstjórnarinnar við Bláfugl

Félag íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) fordæmir að íslenska utanríkisráðuneytið hafi ráðið flugfélagið Bláfugl, Bluebird Nordic, til þess að annast flutning á varningi, þ.á.m. hergögnum, vegna stríðsins í Úkraínu.

FÍA hefur ítrekað bent á það hvernig Bláfugl, sem starfar á grundvelli íslensks flugrekstrarleyfis og lýtur þannig íslenskum lögum, hefur brotið gegn íslenskri vinnulöggjöf með félagslegum undirboðum og gerviverktöku, og sniðgengið kjarasamning sinn við FÍA.

Bláfugl hefur auk þess alfarið hundsað niðurstöðu Félagsdóms sem féll þann 16. september síðastliðinn og með því gert alvarlega atlögu að stjórnarskrárvörðum rétti stéttarfélaga og réttindum íslensks launafólks sem vinnur samkvæmt kjarasamningi.

Það hlýtur að vera krafa okkar allra að íslensk fyrirtæki virði gildandi lög, kjarasamninga og niðurstöður dómstóla.

Það er því með öllu óásættanlegt að það fái að viðgangast að íslenska ríkið, í umboði skattgreiðenda, eigi viðskipti við félag á borð við Bláfugl.

FÍA hefur áður skorað á viðeigandi eftirlitsaðila, yfirvöld og ráðherra að láta sig málið varða og tryggja að Bláfugl fylgi íslenskum lögum og fari eftir niðurstöðum dómstóla.

Sjá hér: https://www.fia.is/frettir-fundagerdir/frettir/aetla-sa-og-blafugl-ad-snidganga-kjarasamninga-og-doma/