None
01. nóv 2021

Framsýn lýsir yfir fullum stuðningi við baráttu starfsfólks Bláfugls

Stéttarfélagið Framsýn hefur bæst í hóp þeirra sem lýsa yfir stuðningi við FÍA. Nú höfum við fengið yfirlýsingar frá fjölda stéttarfélaga og samtaka og má þar nefna: Flugfreyjufélag Íslands, Félag íslenskra flugumferðastjóra, Eflingu, ASÍ, BHM og Framsýn. Við erum afar þakklát fyrir stuðninginn. Ef íslensk fyrirtæki komast upp með háttsemi sem þessa er spurning hvaða stétt verður næst.

„Framsýn stéttarfélag gagnrýnir harðlega framgöngu Bláfugls og Samtaka atvinnulífsins vegna ólögmætra uppsagna félagsmanna FÍA. Um er að ræða algjört virðingarleysi gangvart starfsmönnum fyrirtækisins og grófa atlögu að grundvallarréttindum launafólks á Íslandi.

Framsýn lýsir yfir fullum stuðningi við baráttu starfsfólks Bláfugls og krefst þess að Bláfugl og Samtök atvinnulífsins standi við gildandi kjarasamning og niðurstöðu Félagsdóms sem dæmt hefur uppsagnir starfsfólks í kjaraviðræðum ólögmætar.

Samtökum atvinnulífsins ber að sjálfsögðu að fara eftir lögum og reglum sem gilda á íslenskum vinnumarkaði í stað þess að verja gjörning sem þennan hjá fyrirtæki sem ekki virðir settar leikreglur.

Framsýn krefst þess að Samtök atvinnulífsins hætti þessu uppistandi þegar í stað og virði gildandi kjarasamninga og niðurstöður dómstóla með því að koma vitinu fyrir stjórnendur Bláfugls. Svona gera menn einfaldlega ekki í siðmenntuðu þjóðfélagi.“

Sjá yfirlýsingu hér: https://www.framsyn.is/2021/11/01/framsyn-fordaemir-vinnubrogd-sa-og-blafugls-med-yfirlysingu/