None
15. feb 2022

Mikilvægt að tryggja sterka vinnulöggjöf á íslenskum flugmarkaði

FÍA tekur undir kröfur ASÍ varðandi breytingar á stjórnarfrumvarpi til laga um loftferðir þess efnis að flugliðum verði veitt fullnægjandi vernd gegn félagslegum undirboðum. Mikilvægt er að allur vafi verði tekinn af varðandi það m.a. um að flugrekendur sem starfi á grundvelli íslensks flugrekstrarleyfis starfi samkvæmt íslenskum lögum og fylgi íslenskum kjarasamningum.

FÍA skilaði einnig inn umsögn um lagafrumvarpið þar sem lögð var áhersla á að tryggja flugöryggi en einnig að vernda íslensk störf í flugi og vinna gegn því að flugstarfsemi verði útvistað eða hún færð til ríkja þar sem launa- og um leið framfærslukostnaður er mun lægri og félagsleg réttindi ekki tryggð.

Við höfum séð að flugrekendum sem stunda félagsleg undirboð hefur gengið afar illa að festa sig í sessi í Danmörku og hefur ítrekað verið bolað burtu þaðan. Er það vegna sterkrar vinnulöggjafar í Danmörku. Þetta segir okkur að við getum spyrnt á móti á sama tíma og við virðum fjórfrelsi EES samningsins.

Efst í huga FÍA við yfirferð frumvarpsins var að tryggja þurfi betur ráðningarfyrirkomulag flugmanna enda hefur það bein tengsl við flugöryggi. FÍA telur nú enn mikilvægara en áður að lagst verði með skýrum hætti gegn því að ráðningar flugmanna fari fram með óhefðbundnum hætti, þ.e. í gegnum starfsmannaleigur og með gerviverktakasamningum sem leitt geta til félagslegra undirboða. Telur FÍA mikilvægt að mörkuð verði skýr stefna í þessum efnum og að tækifæri sé til þess með nýjum lögum um loftferðir.

Fram kemur í greinargerðinni með frumvarpinu að framlag flugs og flugtengdrar starfsemi til vergrar landsframleiðslu á Íslandi er 13.4% á meðan sama hlutfall á heimsvísu er um 3.6%. Það er því ljóst að Íslendingar eiga mikið undir því að halda uppi öflugum flugrekstri hér á landi.

Í frétt ASÍ kemur fram krafa um að breytingar verði gerðar á frumvarpinu til að koma í veg fyrir enn frekari félagsleg undirboð í flugrekstri hér á landi og að stjórnarfrumvarpið í óbreyttri mynd opnar fyrir möguleika flugrekstraraðila til að sniðganga íslenska kjarasamninga. ASÍ telur mikilvægt að koma í veg fyrir að flugrekstraraðilar geti hundsað reglur á íslenskum vinnumarkaði með því að skrá sig erlendis. FÍA tekur undir þetta heilshugar.

Sjá frétt á vef ASÍ: https://www.asi.is/frettir-og-utgafa/frettir/almennar-frettir/asi-krefst-breytinga-a-frumvarpi-um-loftferdir/