Anna Lilja Hallgrímsdóttir hefur verið ráðin til starfa sem lögfræðingur hjá Félagi íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) og hóf hún störf 1. desember. Fyrir er Sonja Bjarnadóttir Backmann.
Síðan árið 2012 hefur hún starfað sem lögfræðingur hjá Lögmannafélagi Íslands þar sem hún sinnti m.a. eftirliti með því að lögmenn uppfylltu starfstengdar skyldur sínar, starfaði fyrir laganefnd félagsins og úrskurðarnefnd lögmanna, skipulagði viðburði ásamt því að vera upplýsingafulltrúi gagnvart samtökum evrópskra lögmannafélaga.
Anna Lilja er útskrifaður lögfræðingur frá Háskólanum í Reykjavík en hún lauk BA prófi í lögfræði árið 2010 og meistaranámi árið 2012. Þá hlaut hún málflutningsréttindi fyrir héraðsdómstólum árið 2014. Samhliða námi starfaði hún hjá Creditinfo og Bæjarskrifstofum Garðabæjar ásamt því að vera starfsnemi hjá Mörkinni lögmannsstofu og Ríkissaksóknara.
Anna Lilja er 36 ára Kópavogsbúi og er gift Úlfari Frey Jóhannssyni lögfræðingi og eiga þau saman þrjár dætur á aldrinum 10 mánaða til 10 ára. Hennar helstu áhugamál eru samvera með fjölskyldunni, ferðalög og hundurinn Perla.
Stjórn býður Önnu velkomna til starfa og óskar henni velfarnaðar í starfi.