None
05. sep 2024

Peer Support - heimasíða

Komin er í loftið ný heimasíða fyrir Peer Support og hana má finna hér: https://www.fia.is/peer-support/peer-support/

Það muna eflaust flestir eftir GermanWings slysinu sem átti sér stað árið 2015. Í kjölfar þess slyss setti EASA (European Aviation Safety Agency) saman vinnuhóp (e. task force) til að greina skýrslu franskra flugmálayfirvalda og koma með tillögur að breytingum á reglugerð til að stuðla að auknu flugöryggi. Vinnuhópurinn skilaði af sér sex tillögum og ein þeirra var innleiðing á Peer Support System.

Stoðnefnd hefur verið hluti af starfsemi FÍA í lengri tíma og hafa margir félagsmenn nýtt sér aðstoð nefndarinnar. Hluti af verkefnum Stoðnefndar hefur verið að aðstoða flugmenn sem þurft hafa stuðning vegna hinna ýmsu mála með því einfaldlega að vera til staðar og spjalla eða beina þeim í viðeigandi úrræði eins og t.d. til sálfræðings eða geðhjúkrunarfræðings. Þegar Peer Support kom til sögunnar, tók Stoðnefnd FÍA að sér að það verkefni að setja á laggirnar Peer Support System fyrir þá viðsemjendur sem áhuga höfðu á því. Í dag sinnir Stoðnefnd FÍA þessu verkefni fyrir Icelandair, Air Atlanta Icelandic, Norlandair, Mýflug og Landhelgisgæslu Íslands.

Margir hafa velt því fyrir sér hver munurinn er á Stoðnefnd og Peer Support. Til að svara þeirri spurningu í stuttu máli þá er Stoðnefnd ábyrg fyrir daglegum rekstri Peer Support kerfisins. Til að nefna nokkur dæmi um hlutverk Stoðnefndar í þessu samhengi, þá vaktar nefndin breytingar á reglugerðum og gerir uppfærslur á verkferlum og handbókum með tilliti til breytinga, hefur yfirumsjón með ný- og síþjálfun einstaklinga sem sinna störfum innan Peer Support og sér um samskipti við flugrekendur og fagaðila.

Við hvetjum alla til að kynna sér nýju heimasíðuna og starfsemi Peer Support. Unnið er að íslensku útgáfu síðunnar og verður hún birt innan skamms.