None
18. apr 2020

Rangfærslur um launamál flugmanna

Nýlegar fréttir í fjölmiðlum af launum flugmanna Icelandair eiga sér litla stoð í raunveruleikanum. Félag íslenskra atvinnuflugmanna vill, að gefnu tilefni, koma eftirfarandi staðreyndum á framfæri.

Laun flugmanna eru markaðslaun

Það er misvísandi að ýja að því að launakostnaður flugmanna Icelandair sé stór þáttur í rekstrarvanda flugfélagsins eða að hann sé yfir höfuð hærri en gerist á hinum alþjóðlega markaði sem félagið starfar á. Laun flugmanna Icelandair eru fyllilega sambærileg launum hjá öðrum flugfélögum, austan hafs og vestan.

Vegna rangra staðhæfinga í fjölmiðlum er einnig rétt að taka fram að það er rangt að flugmenn WOW air hafi verið með mun lægri laun en flugmenn Icelandair – launin voru sambærileg.

Flugmenn vilja fljúga meira

Nýting flugmanna gæti verið betri hjá Icelandair, en hluta vandans má að stærstu leiti rekja til kyrrsetningar B 737 Max flugvéla félagsins. Breytingar á leiðarkerfi höfðu einnig neikvæð áhrif á nýtingu ásamt innra skipulagi og einstökum ákvörðunum stjórnenda. Kjarasamningar flugmanna Icelandair koma ekki í veg fyrir nýtingu starfskrafta þeirra til jafns við það sem best gerist erlendis.

Flugmenn hafa sjálfir haft frumkvæði að því að bæta nýtingu og hafa sem dæmi í öllum kjaraviðræðum frá árinu 2011 lagt fram fullmótaðar tillögur þess efnis bæði fyrir leiguflug erlendis og áætlunarflug í leiðarkerfi Icelandair. Vert er að geta þeirra breytinga sem gerðar voru á kjarasamningi árið 2018 til að auka nýtingu flugmanna og efla markaðssókn félagsins til muna. Vegna kyrrsetningar B737 Max véla Icelandair á sú hagræðing enn eftir að skila sér að fullu þegar betur árar.

Stuðningur við félagið

Flugmenn Icelandair eiga nú sem fyrr mikið undir framtíð fyrirtækisins og munu leggjast af fullum þunga á árarnar til að létta fyrirtækinu róðurinn. Flugmenn hafa þegar sýnt viljann í verki með því að fresta umsömdum launahækkunum á síðasta ári, framlengja kjarasamning án launahækkana auk þess sem að þeir flugmenn sem hafa ekki sætt uppsögn tóku á sig 50% launaskerðingu í apríl og maí. Þá er ótalinn fjöldi undanþága frá ákvæðum kjarasamnings og reglugerða vegna Covid-19 ástandsins og fleiri tilfallandi þátta.

Nú þegar hefur 23% flugmanna Icelandair verið sagt upp störfum og fleiri uppsagnir hafa því miður verið boðaðar. FÍA hefur ekki upplýsingar um hvert endanlegt umfang þeirra uppsagna kann að verða.

Það er bæði ósanngjarnt og villandi að velta ábyrgðinni á framtíð flugfélagsins að mestu yfir á starfsfólk þess. Rekstrarvandi Icelandair er flókið samspil ytri og innri þátta og flugmenn ætla að taka þátt í að leysa úr þeim vanda með fyrirtækinu á næstu mánuðum.