None
10. okt 2024

Reykjavík Flight Safety Symposium 2024

Öryggisráðstefnan Reykjavík Flight Safety Symposium haldin í áttunda sinn

Öryggisnefnd Félags íslenskra atvinnuflugmanna stóð fyrir öryggisráðstefnunni ,,Reykjavík Flight Safety Symposium“ í áttunda sinn í Gullhömrum, Reykjavík. Ráðstefnan, sem hefur fest sig í sessi sem einn mikilvægasti vettvangur fyrir umræður um flugöryggi á Íslandi, var afar vel sótt í ár og mættu um 140 þátttakendur frá ýmsum sviðum flugiðnaðarins, bæði innanlands og erlendis.

Fjölbreytt dagskrá og fræðandi umræður

Ráðstefnan var full af góðum og áhugaverðum fyrirlestrum og umræðum um ýmis brýn málefni tengd flugöryggi. Svandís Svavarsdóttir, innviðaráðherra, setti ráðstefnuna með opnunarávarpi þar sem hún lagði áherslu á mikilvægi flugöryggis í nútíma samgöngum og ítrekaði meðal annars að skýrslan um Hvassahraun væri ekki ákvörðunarpunktur heldur þyrfti fleiri rannsóknir til frá sérfræðingum. Eftir setningu ráðstefnunnar tók Niklas Ahrens, flugmaður og meðlimur vinnuhóps IFALPA, við með fyrirlestur um GPS truflanir í flugi og þær ógnir í netöryggi sem fluggeirinn stendur frammi fyrir í framtíðinni. Fyrirlesturinn vakti mikla athygli, enda fjallaði hann um nýjar áskoranir í flugheiminum sem hafa áhrif á alla þátttakendur í iðnaðinum. Aðrir fyrirlesarar fjölluðu m.a. um GPS truflanir út frá sjónarhorni flugrekanda, reynsla fjarturna í Svíþjóð út frá sjónarhorni flugmanna, andleg heilsa, skapandi og gefandi samskipti og innleiðingu á Airbus flota Icelandair á komandi misserum. Að lokum flutti Jón Hörður Jónsson, formaður öryggisnefndar stutta hugvekju um flugöruggismál og sleit ráðstefnunni. Jóhannes Bjarni Guðmundsson, betur þekktur sem Jói Baddi í Flugvarpinu, var fundarstjóri.

Sterkur vettvangur fyrir framtíðarumræður

Reykjavík Flight Safety Symposium hefur sannað gildi sitt sem vettvangur fyrir faglega umræðu um flugöryggi og snertir á málefnum sem skipta flugiðnaðinn verulegu máli fyrir alla hagaðila sem koma að flugreksri með einum eða öðrum hætti.

Öryggisnefnd FÍA vill koma á framfæri þakklæti til allra fyrirlesara fyrir frábærar kynningar, hagaðila fyrir koma og taka virkan þátt í ráðstefnunni og þá styrktaraðila sem styrktu ráðstefnuna.

Hér má finna erindi frá fyrirlesurum.

Hér má finna myndir af ráðstefnunni.