None
05. mar 2021

Sigur FÍA í héraði

Verkfallsaðgerðir löglegar


  • Héraðsdómur Reykjaness staðfesti í dag ákvörðun Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu um að verkfallsaðgerðir FÍA væru löglegar og að ekki yrði lagt lögbann á þær
  • Dómurinn telur jafnframt kominn fram vafa um lögmæti uppsagna á flugmönnum FÍA
  • Vísbendingar um að verktakaflugmenn séu í raun launþegar
  • Kjarasamningur FÍA við Bláfugl gildir enn að efni ti.

Í dag féll úrskurður í héraðsdómi í máli Bláfugls ehf. gegn Félagi íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA), en Bláfugl hafði krafist þess að lögbann yrði lagt á verkfallsaðgerðir flugmanna félagsins sem starfa á kjarasamningi. Sýslumaður hafði áður synjað lögbannsbeiðni félagsins en Bláfugl ákvað að bera þá ákvörðun undir héraðsdóm.

Héraðsdómur staðfesti hins vegar ákvörðun Sýslumanns um lögmæti verkfallsaðgerðanna og tók fram að ekkert hafi komið annað fram en að til verkfalls hafi verið boðað með lögmætum hætti. Má af því leiða að FÍA hafði fullan rétt á því að standa vörð um boðað verkfall og gæta þess að ekki sé gengið í störf þeirra sem eru í verkfalli.

Vafi á lögmæti uppsagna


Niðurstaða héraðsdóms rennir styrkum stoðum undir rök FÍA í baráttu sinni gegn ólögmætum félagslegum undirboðum og gervirktöku Bláfugls en í síðustu viku höfðaði FÍA mál fyrir Félagsdómi varðandi ólögmætar uppsagnir flugmanna Bláfugls sem starfa á kjarasamningi.

Í úrskurðinum kemur skýrt fram að dómurinn telji kominn fram vafa um lögmæti uppsagna Bláfugls á flugmönnum félagsins sem starfa á kjarasamningi. Þannig segir í niðurstöðu dómsins að meðan á kjaraviðræðum deiluaðila stóð hafi Bláfugl ráðið til sín átta nýja flugstjóra og tvo flugmenn á verktakakjörum og rúmum mánuði síðar sagt upp átta fastráðunum flugstjórum og tveimur flugmönnum innan vébanda stéttarfélagsins. Í úrskurði segir m.a. að „Með hliðsjón af grein 01-3 fyrri kjarasamnings, sem gildir enn að efni til og kveður á um að ráðning eða leiga flugmanna til sóknaraðila skuli ekki hafa á neinn máta hafa áhrif á framgang fastráðinna flugmanna, sem eru félagsmenn varnaraðila, eða leiða til uppsagna þeirra telur dómurinn fram kominn vafa um lögmæti nefndra uppsagna.“ Að mati FÍA virðist ljóst að Bláfugl hafi ráðið inn gerviverktaka í þeim eina tilgangi að segja upp flugmönnum sem starfa á kjarasamningi og eru í stéttarfélagi.

Af dóminum má einnig leiða að vísbendingar séu um að flugmenn félagsins sem ráðnir eru inn sem verktakar séu í raun launþegar, og þar með gerviverktakar, en ekki var hægt að taka afstöðu til þess í dóminum þar sem Bláfugl lagði ekki fram gögn sem sýndu fram á að um verktaka væri að ræða.

Dómurinn taldi að Bláfugl hafi hvorki sannað né gert sennilegt að verkfallsaðgerðir FÍA hafi eða muni brjóta gegn lögvörðum rétti hans. Einnig kvað úrskurðurinn á um að Bláfugl myndi greiða málskostnað, sem metið var á kr. 620.000.