Starfsmenntasjóður

Í samræmi við lög og reglur Starfsmenntasjóðs FÍA, grein 4.3, hefur stjórn sjóðsins sett sér starfsreglur við úthlutun styrkja. Starfsreglur þessar skulu nýtast sem leiðbeiningar við úthlutun styrkja enda eru þær til þess fallnar að auka gagnsæji fyrir félagsmenn sem hyggjast nýta sér sjóðsréttindi sín. Komi upp tilfelli þar sem starfsreglur þessar samræmast ekki lögum og reglum SFÍA ganga lög og reglur sjóðsins framar starfsreglum þessum. Félagsmaður getur ávallt skotið ákvörðun starfmenntasjóðs til stjórnar FÍA sem hefur endanlegt úrskurðarvald varðandi styrkjaúthlutun.

Félagsmaður sem starfar hjá flugskóla, skal annað hvort senda inn staðfestingu á starfshlutfalli frá vinnuveitanda, eða senda inn heildarflugtíma í kennslu síðast liðna 12 mánuði með styrkumsókn. Miðað er við að í 100% starfshlutfalli, kenni flugkennari að meðaltali 56 flugstundir á mánuði. Þetta er í samræmi við reglu 7.3 í reglum sjóðsins þar sem kveður á að þeir sjóðsfélagar sem eru í hlutastarfi fá greitt hlutfallslega af hámarksstyrk.

Styrkir til félagsmanna skiptast í tvennt, annars vegar styrkir til starfsmennta og hins vegar styrkir til tómstunda.

  • Styrkir til starfsmennta eru að hámarki 500.000.- krónur eða allt að 85% af heildarnámskostnaði.
  • Styrkir til tómstunda eru að hámarki 100.000 krónur eða allt 85% af kostnaði.
  • Hámarksstyrkveitingar taka til síðustu 36 mánaða og eru greiddar í hlutfalli við vinnuhlutfall umsækjanda.

Styrkir úr Starfsmenntasjóði taka ekki til náms sem telst sem hluti af starfi flugmanns, til að mynda tegundaáritanir og skyldunámskeið sem tilgreind eru í þjálfunarhandbókum flugfélaga.

Styrkir til starfsmennta ná til náms er veitir starfsréttindi eða starfsleyfi. Veittur er styrkur til náms hjá viðurkenndri menntastofnun s.s. háskólanáms, framhaldsskólanáms, iðnnáms starfstengds réttindanáms o.s.frv. Starfsnám telst nám sem lýkur með útgáfu prófskírteinis, vottorði eða öðrum opinberum vitnisburði sem staðfestir að faglegu námi hafi verið lokið á fullnægjandi hátt. Styrkur til starfsnáms er veittur bæði til bóklegs og verklegs hluta er námið nær til.

Til tómstundastyrkja teljast öll námskeið, nám og fyrirlestrar sem ekki falla undir skilgreiningu starfsnáms að ofan en eru til þess fallin að auka hæfni og færni félagsmanna þó þeim fylgi ekki aukin réttindi í starfi. Vert er að taka fram að hvers konar íþróttaiðkun telst ekki styrkhæf. Erfitt er að finna slíkum styrkjum stað innan SFÍA og ljóst að auka þyrfti framlög til sjóðsins umtalsvert ætti hann að geta staðið undir slíkum skuldbindingum.

Fyrirlestrar á vegum SFÍA eru ekki háðir ofangreindum skilyrðum. Þeir geta tekið til faglegra mála, tómstunda eða eingöngu til skemmtunar fyrir félagsmenn. Leitast skal við að fyrirlesarar séu fagaðilar og að fyrirlestrar séu opnir öllum félagsmönnum. Félagsmenn eru hvattir til að senda inn ábendingar um fyrirlestra og verða allar ábendingar teknar fyrir af stjórn SFÍA.

-----

Samkvæmt reglugerð sjóðsins er verkefni hans að standa straum af kostnaði við námskeiðahald sem stjórn sjóðsins ákveður á hverjum tíma að bjóða sjóðsfélögum. Þriggja manna stjórn sjóðsins er skipuð af stjórn FÍA og tekur ákvörðun um hvaða námskeið skulu boðin félagsmönnum.